Forsætisráðuneytið hefur gengið frá kaupum á Mercedes-Benz S-Class fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

S-Class er flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans. Hann er mest seldi lúxusbíll í sínum flokki í heiminum í dag og er eftirsóttur meðal þjóðhöfðingja. Listaverð S-Class bílsins er um 22 milljónir samkvæmt verðlista Bílaumboðsins Öskju sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi. Íslensku bílaumboðin fá þó sérstaka afslætti frá bílaframleiðendunum erlendis fyrir ráðherrabíla. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fær forsætisráðuneytið bílinn á undir 13 milljónum.

Útboð stóð yfir á kaupunum í samstarfi við Ríkiskaup. Aðrir bílar sem komu til greina voru Audi A8, BMW 7-línan og Lexus GS. Síðasti bíll forsætisráðuneytisins var BMW 7-línan. Sigmundur Davið er ekki eini ráðherrann sem hefur Mercedes-Benz bíl til umráða því Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra ekur um á Mercedes-Benz E-Class sem hann fékk nýverið.

Mercedes-Benz hefur ekki verið í þjónustu forsætisráðuneytisins frá árinu 1978, eða í 36 ár. Þá var Geir Hallgrímsson forsætisráðherra og ók um á S-Class.