Vinstri græn mælast með mest fylgi íslenskra stjórnmálaflokka, eða 24,7% samkvæmt nýrri könnun MMR á fylgi flokka. Fast á hæla VG fylgir Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5% fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar hækkaði á milli mælinga og er 10,4% og fylgi Pírata lækkaði milli mælinga og mælist nú 10%. Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunarinnar hér.

Vakti það sérstaka athygli að fyrirhugaður stjórnmálaflokkur Sigmundar Davíðs, fyrrverandi forsætisráðherra, mælist með stuðning 7,3% kjósenda og mælist þar með stærri en Viðreisn, Björt framtíð og Framsóknarflokkurinn. Framsókn mælist með 6,4% fylgi, Viðreisn með 4,9%, og Björt framtíð með 3% fylgi. Fylgi Flokks fólksins mældist nú 8,5% og mældist 9,1% í síðustu könnun.

Stuðningur við ríkisstjórnina lækkaði milli mælinga. Kváðust 22,5% styðja ríkisstjórnina samanborið við 29,5% í síðustu könnun.