„Efnahagsástand landsins hefur aldrei verið jafngott. Það er ótækt að á sama tíma séu húsnæðismál í ólestri á Íslandi. Á næstunni mun ég fjalla töluvert um hvernig hægt sé að ráða bót á því.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í bloggfærslu á heimasíðu sinni www.sigmundurdavid.is. Færslan ber heitið „Lausn húsnæðisvandans“ og vísar til þess vanda að mikill framboðsskortur ríkir á húsnæðismarkaði.

Þar segist Sigmundur Davíð ætla að birta „tíu ráð til að lagfæra húsnæðismarkaðinn á Íslandi“ á næstunni „í tilefni páskanna.“ Fimm þeirra birtast í færslunni og munu fimm til viðbótar birtast í næstu grein. Lausnirnar fela í sér breytingar á vaxtastiginu og starfsemi fjármálakerfisins, en atriðin í næstu grein snúa að samspili fjárhagslegra þátta og skipulagsmála.

#1 Lækkun vaxta

Sigmundur Davíð gefur í skyn að vaxtastigið í landinu sé rót vandans. Þörf sé á því að lækka vexti til að lækka byggingarkostnað og byggja þær 5.000 íbúðir sem þarf til að koma markaðnum í jafnvægi.

„(Þ)að er vart hægt að ofmeta hversu mikilvægt þetta atriði er. Það hefur áhrif á öllum stigum vandans. Háir vextir hækka verð á byggingarvörum, tilboð verktaka, kostnað þess sem byggir og þess sem kaupir eða leigir. Vextirnir hafa fyrir vikið áhrif á hvort menn sjái sér yfir höfuð hag í að byggja fyrir sjálfa sig eða aðra og það hvort eða hversu stórt húsnæði fólk hefur efni á að kaupa eða leigja,“ segir Sigmundur Davíð. Í kjölfarið tekur hann dæmi þar sem hann sýnir hvernig lækkun vaxta lækkar vaxtakostnað við byggingarframkvæmdina.

#2 Aðkoma lífeyrissjóða

„Sjóðirnir þurfa að fjárfesta mun meira erlendis, taka virkan þátt í að fjármagna nýsköpun og uppbyggingu um allt land á Íslandi og því að reisa íbúðarhúsnæði sem verður örugg og verðmæt fjárfesting til framtíðar,“ segir Sigmundur Davíð um íslensku lífeyrissjóðina. Segir hann að þeir haldi utan um „það stóran hluta“ af fjármagni Íslendinga að þeir þurfi að vera þátttakendur í framleiðslu nýrra verðmæta í landinu, „taka þátt í að búa til framboð þar sem er skortur en forðast að taka þátt í bólumyndun.“

#3 Ráðstöfun eigin sparnaðar í eigin húsnæði

Sigmundur Davíð leggur til að heimildir fólks til að nýta séreignasparnað til að fjármagna kaup á heimili verði rýmkaðar.

„Heimili hvers einstaklings eða fjölskyldu er í flestum tilvikum megin eign viðkomandi og megin sparnaður á efri árum. Það hlýtur því að vera eðlilegt að gefa fólki kost á að nýta sparnað sinn til að byggja þá eign hraðar upp og draga úr vaxtabyrði á meðan hún er hvað þyngst. Ella þarf fólk að geyma sparnað sem það á með réttu á lægri vaxtatekjum en nemur vaxtagjöldunum af lántöku sem komast mætti hjá.“

#4 Lagfæringar á byggingarreglugerð

Þörf er á því að gera talsverðar lagfæringar á „margumræddri og íþyngjandi byggingarreglugerð frá 2012“ til að draga úr sóun og óþarflega háum byggingarkostnaði, einkum vegna minni íbúða. Telur Sigmundur að það megi gera án þess að fórna nokkru af eðlilegum nútímakröfum um öryggis- og gæðamál.

#5 Inngrip ríkisins

Sigmundur Davíð telur nauðsynlegt að hið opinbera standi í rekstri fasteignalánafyrirtækis sem tekur tillit til byggðasjónamiða og að beittir verði skattalegir hvatar til að koma framkvæmdum af stað á ákveðnum svæðum. Sérstaklega sé þörf á slíku á landsbyggðinni, einkum á hinum kaldari svæðum, þar sem skortur á veðhæfi og flutningskostnaður hafa sett verulegt strik í reikninginn í húsnæðisframboði og uppbyggingu ásamt því að ýta undir ofhitnun á fasteignamarkaði. „Í slíkum tilvikum er eðlilegt að stjórnvöld grípi inn í svo að kraftar markaðarins nýtist á jákvæðan hátt.“