Frumvarp Ragnheiðar Elínar um náttúrupassa var lagt fram á Alþingi í desember árið 2014 en náði ekki fram að ganga. Þó útlit sé fyrir að ekkert verði úr hugmyndum um náttúrupassa er greinilegt að umræðan um gjaldtöku af erlendum ferðamönnum hefur ekki enn verið til lykta leidd.

Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins líkti Ragnheiður Elín þessari umræðu, og spurningunni um það hvort og með hvaða hætti ætti að haga gjaldtöku, við fílinn í postulínsbúðinni. Sagist hún reyndar verða að viðurkenna að þetta mál væri ekki efst á verkefnalistanum núna „enda ljóst að greinin er að skila umtalsverðum fjármunum til ríkisins í formi skatta. Sem dæmi þá jukust tekjur af virðisaukaskatti af ferðamönnum um 10 milljarða á milli áranna 2014 og 2015". Hún sagði að ef nauðsynlegt væri talið að ríkissjóður aflaði frekari tekna til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu innviða þá þyrfti að taka af skarið og velja leið.

Á fundinum talaði Grímur Sæmundsen, formaður samtakanna, um mikilvægi þess að fá aukið fjármagn í uppbyggingu innviða og endurbóta á ferðamannastöðum. Nefndi hann að nota mætti bílastæðagjöld til aðgangsstýringar. Það er líka ljóst að innan ferðaþjónustunnar ríkir ekki einhugur um hvernig ber að taka gjald af ferðamönnum.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu í síðustu viku sagðist Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, sakna náttúrupassans. „Ég var gríðarlega svekktur að okkur skyldi ekki bera gæfu til þess að ná saman um náttúrupassann þó ekki væri nema til bráðabirgða. Ég var og er mikill stuðningsmaður hans, og er algjörlega ósammála Samtökum atvinnulífsins um þeirra útfærslu."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti einnig erindi á fundi SAF þar sem hann sagði mikið rætt um nauðsyn þess að ráðast í sérstaka gjaldtöku til að standa undir framkvæmdum á ferðamannastöðum. „Ég er þeirrar skoðanir að það muni þurfa að leggja á gjaldtöku," sagði hann en benti á að þó að slíkt væri gert þyrfti líka að horfa á stóru myndina. Ferðaþjónustan væri nú þegar að skila miklum fjármunum í ríkissjóð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .