Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi fréttastjóri á Stöð 2 og alþingismaður, hefur verið ráðinn til auglýsingastofunnar Pipar. Hann hóf störf um áramótin.  „Þetta er bransi sem mig hefur alltaf langað til að máta mig við,“ segir Sigmundur Ernir.

Hann segir að eftir þrjátíu ára fjölmiðlareynslu og þekkingu á stjórnsýslunni eftir þingstörf sé ágætt að miðla af reynslu sinni bæði til fyrirtækja og auglýsenda. „Það er um að gera að nota uppsafnaða reynslu á réttum stað,“ segir hann. Hann segir að fyrirtækið sé skapandi og skemmtilegt og með samheldnu starfsfólki. Hann kunni því afskaplega vel við sig.

En Sigmundur er með fleiri járn í eldinum. Hann er að skila inn handriti að ljóðabók á næstu dögum. „Vonandi kemur barnabók á þessu ári og ef til vill svona nokkurskonar ævisaga,“ segir Sigmundur Ernir. Þar á hann við bók um tengdamóður sína. Elín Sveinsdóttir, eiginkona Sigmundar Ernis, sagði sögu hennar í viðtali við DV á dögunum.