Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar og fyrrverandi forsætirsáðherra, segist í Facebook-færslu vera gáttaður á yfirlýsingum Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, í Financial Times.

Líkt og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu, sagði fjármálaráðherra í viðtali við Financial Times að hin fljótandi íslenska króna væri óviðunandi og að skoðað yrði að festa gengi hennar við gengi annarra gjaldmiðla, þá líklegast evruna eða breska pundið.

„Ætli sé ekki best að fara í göngutúr og hugsa um eitthvað skemmtilegt."

Sigmundur Davíð segist gáttaður á þessum yfirlýsingum fjármálaráðherra og segist einnig lesa það úr greininni að blaðamaður Financial Times hafi líka vera hissa. Í lok færslu sinnar endar Sigmundur á þessum orðum: „Það er fallegt veður. Ætli sé ekki best að fara í göngutúr og hugsa um eitthvað skemmtilegt."

Í heild sinni hljóðaði færsla Sigmundar svo:

Gáttaður á yfirlýsingum fjármálaráðherra í Financial Times. Blaðamaðurinn virðist líka vera hissa:
„Fjármálaráðherra Íslands hefur viðurkennt að það sé óforsvaranlegt fyrir landið að viðhalda eigin fljótandi gjaldmiðli, aðeins dögum eftir að landið aflétti fjármagnshöftum"
Ráðherrann bætir svo við að allir séu sammála um að óbreytt ástand sé óverjandi og að ríkisstjórnina langi að hafa stefnu sem gerir gjaldmiðilinn stöðugan. „Það er ekki gott þegar gjaldmiðill sveiflast um 10 prósent á þeim tveimur mánuðum sem eru liðnir frá því að við tókum við".
Stöðugleikanum virðist eiga að ná með því að tengja krónuna við annan gjaldmiðil en þó segir ráðherrann fráleitt að tengja krónuna við Kanadadollar eða norska krónu því að þeir gjaldmiðlar hafi veikst gagnvart krónu á undanförnum mánuðum.
-Ólíkt evrunni eða hvað?!

Toppnum er þó náð í lok greinarinnar: „Hr. Jóhannesson viðurkennir að meðal almennings séu efasemdir um hlutverk vogunarsjóða, sem helst vilji láta lítið á sér bera, í fjármálageiranum. Hann sagði að finna þyrfti jafnvægi milli löngunar eftir alþjóðlegum fjárfestum og þarfar fyrir gagnsæi frá þeim aðilum."

Það er fallegt veður. Ætli sé ekki best að fara í göngutúr og hugsa um eitthvað skemmtilegt.