„Þetta er bara Toyota Hilux sem örugglega er í eigu Önnu Stellu eða pabba hennar. Þau eru bílafólkið á heimilinu. Sigmundur pælir ekkert í þessu,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verðandi forsætisráðherra, um bílinn sem lögregla stöðvaði hann og Sigmund Davíð á vegna hraðaksturs í Mosfellsdalnum eftir hádegið í dag. Þeir voru á leið til borgarinnar frá Laugarvatni en þar undirrituðu þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem tekur við á morgun.

Jóhannes segist hafa verið stressaður og of seinn á fund , bensínfóturinn því of þungur og bíllinn á 106 kílómetra hraða þegar lögregla stöðvaði ferð þeirra Sigmundar. Hann segist lítið vita um bílinn, hvorki hvaða módel hann er né annað en telur hann nokkurra ára gamlan og gott að aka um á honum.

„Við köllum hann landbúnaðartækið,“ segir Jóhannes glaðhlakkalega, bendir á að Toyota Hilux-inn sé pallbíll og bætir við að hann hafi með Sigmundi Davíð ekið nokkra hringi í kringum landið á bílnum á síðastliðnum tveimur árum, sennilega nokkuð þúsund kílómetra.

Páll Samúelsson, tengdafaðir Sigmundar Davíðs og faðir Önnu Stellu, konu hans, rak Toyota-umboðið á Íslandi í 35 ár eða þar til félagið Smáey, sem var í eigu útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar, keypti það í jólamánuðinum árið 2005. Talið er að kaupverðið hafi numið í kringum sjö milljörðum króna.