Sigmundur Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra og sitjandi formaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að hætta í stjórnmálunum. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur Davíð sendi framsóknarmönnum og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Sigmundur telur land og þjóð standa á pólitískum krossgötum, og því megi ekki láta pólitíska vinda slá sig út af laginu. Hann segir sig hafa notað sumarið vel, til þess að skrifa, fræðast og leita nýrra sóknarfæra fyrir Ísland.

Á næstunni mun hann hefja fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni. Hann gerir sér grein fyrir því að það muni vekja viðbrögð. Viðbrögð megi hins vegar ekki slá framsóknarfólk út af laginu. Á árinu verður flokkurinn 100 ára og telur hann þessa aldargömlu hreyfingu geta sannað sig á ný.

Samkvæmt Sigmundi hefur vinna síðastliðinna þriggja ára uppfyllt flest fyrirheit flokksins og skapað aðstæður til að klára ný og ókláruð mál. Sigmundur segir landið aldrei hafa verið jafn vel í stakk búið til þess að sækja fram og nú. Þá sókn skuli Framsókn leiða.