Fyrr í dag birtist frétt á Vísi þar sem því var haldið fram að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fráfarandi forsætisráðherra, hafi pantað sér ferð út í geim með Richard Branson. Á Facebook-síðu sinni svarar forsætisráðherra fréttinni og segir að hún sé bull frá upphafi til enda.

Sigmundur segir enn fremur að þótt margir blaðamenn hafi haldið uppi gagnrýni á Önnu Sigurlaugu þá hafi sumir farið með rangfærslur og útúrsnúninga um mál málanna, hið svokallaða Wintris-mál - en nú hafi „vitleysan náð stjarnfræðilegum hæðum."

„Ég þurfti að lesa þetta fimm sinnum og athuga jafn-oft hvort ég væri að lesa pistil á grínsíðu eða fréttasíðu," segir Sigmundur. „Eins og nærri má geta er fréttin bull frá upphafi til enda eins og reyndar ýmislegt annað sem fram kemur á þeim miðli sem Vísir vitnar til."

Sigmundur telur að engin takmörk séu fyrir því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í fréttaflutningi af sínum nánustu:

En það virðist orðið ljós að það séu engin takmörk fyrir því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í súrrealískum „fréttaflutningi“ af mínum nánustu. Hvar endar eiginlega vitleysan ef hún takmarkast ekki einu sinni við gufuhvolf jarðar?

Lesa má grein Sigmundar hér og frétt Vísis hér .