Sigríður Ásthildur Andersen, alþingismaður, sækist eftir því að leiða annað kjördæmið í höfuðborginni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þingkosningunum í haust. Býður hún sig því fram í 2. sætið í prófkjöri flokksins sem fram fer 3. september komandi. Kemur þetta fram á mbl.is .

Umræða um umhverfismál einhliða

„Ég hef náð góðum árangri í þeim málum sem ég hef beitt mér fyrir á Alþingi, í efnahags- og skattamálum og ekki síður í umhverfismálum en umræða um þau hefur lengi verið mjög einhliða,“ segir Sigríður í tilkynningu sem birt er á vefnum.

„Ég vil gjarnan fá áfram tækifæri til að eiga frumkvæði að mikilvægum málum sem þessum og leiða vinnu sem þarf að halda áfram á næsta kjörtímabili og miðar að því að renna styrkari stoðum undir velferð hér á landi.“

Afnám vörugjalda og tolla skref í átt að léttari skattheimtu

„Á þessu kjörtímabili hefur orðið jákvæður viðsnúningur í efnahagslífinu. Auk samninga við slitabú föllnu bankanna um verulegt stöðugleikaframlag af þeirra hálfu í ríkissjóð hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft forgöngu um mikilvægar breytingar sem rennt hafa stoðum undir þennan viðsnúning,“ segir Sigríður jafnframt og heldur áfram.

“Afnám allra almennra vörugjalda og afnám 2/​3 álagðra tolla, lækkun tekjuskatts og hluta virðisaukaskatts eru allt skref í átt að léttari, gagnsærri og skilvirkari skattheimtu. Kaupmáttur launa hefur aukist verulega og ráðstöfunartekjur heimila einnig.“