Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir ábyrgðarleysi af fjögurra þingmanna þingflokki sem lýst hefur sig reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn að slíta henni. „Mér finnst þetta lýsa stórkostlegu ábyrgðarleysi af hálfu þessa litla flokks, sem er þó með fjóra þingmenn á þingi og hefur lýst sig reiðubúinn til að starfa í ríkisstjórn,“ er haft eftir Sigríði í morgunútvarpi RÚV .

Sagði hún að Björt framtíð hefði átt að gefa forsætisráðherra tækifæri til að ræða við samstarfsflokkana og tjá sig um málið, en eins Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hafði hann sagt formanni Bjartrar frá uppáskrift föður síns fyrr í vikunni.

„En þessi tilkynning, undir miðnætti í gær, af einhverjum netfundi stjórnar þessa flokks sýnir það auðvitað að þessum flokki var auðvitað aldrei nein alvara í því að axla ábyrgð hér á ríkismálunum í samstarfi við ríkisstjórn Íslands,“ segir Sigríður. „Það er auðvitað háalvarlegt mál að mínu mati, að menn taki að sér að axla þessa ábyrgð en standi ekki meira undir henni en svona.“

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sakað Sigríði um leyndarhyggju, en hún segist aðspurð ekki hafa séð ástæðu til að segja öðrum ráðherrum á sínum tíma frá því að faðir forsætisráðherra hefði verið einn þeirra sem skrifað hafði undir bréfið sem virðist nú ætla að velta ríkisstjórninni.

„Ég hefði auðvitað alveg getað rætt það í trúnaði við aðra ráðherra en ég sá enga ástæðu til þess,“ segir Sigríður.

„Ég gæti alveg skilið það að mönnum finnist þetta vera trúnaðarbrestur. En það er var það ekki. Ég hefði ekkert frekar viljað en birta þessar upplýsingar á þessum tímapunkti í sumar en mér var einfaldlega ekki stætt á að gera það því málið var í afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála.“