Sigrún Ragna Ólafsdóttir hefur tekið sæti í stjórn Creditinfo Group í stað Hákons Stefánssonar sem sat tímabundið í stjórninni en hann starfar sem aðstoðarforstjóri félagsins.

Sigrún Ragna tekur jafnframt sæti í stjórn dótturfélags Creditinfo Group, Creditinfo Lánstrausts, í stað Reynis Grétarssonar forstjóra Creditinfo Group. Stjórnir félaganna eru að öðru leyti óbreyttar að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Sigrún Ragna var forstjóri VÍS á árunum 2011-2016. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka frá árinu 2008 og þar á undan hjá Glitni.

Sigrún var einn af eigendum Deloitte hf., þar starfaði hún um árabil og gegndi jafnframt stjórnarformennsku í félaginu. Sigrún útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1987 með cand.oecon próf af endurskoðunarsviði og hlaut löggildingu sem endurskoðandi frá sama skóla árið 1990.

Sigrún útskrifaðist með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.

Reynir Grétarsson , forstjóri Creditinfo Group, segist ánægður með að fá Sigrúnu til liðs við félagið.

„Hún er gríðarlega öflugur stjórnandi sem kemur að borðinu með þá þekkingu og reynslu sem okkur vantaði,“ er haft eftir Reyni í fréttatilkynningu.

„Félagið er í örum vexti en í ár erum við að vaxa um sirka 30%. Það er þörf fyrir aga og gott skipulag í stjórnun þar kemur Sigrún meðal annars sterk inn. Ég hlakka til að vinna með henni að áframhaldandi vexti og verðmætasköpun hjá félaginu.“

Sigrún Ragna Ólafsdóttir segir framtíðina vera bjarta fyrir félagið.

„Það er afar ánægjulegt að geta tekið þátt í áframhaldandi uppbyggingu Creditinfo erlendis og hér á landi,“ er sömuleiðis haft eftir Sigrúnu Rögnu.

„Grunnstoðir félagsins eru traustar og það eru jafnframt heilmikil tækifæri fyrir þróun og nýsköpun hjá félaginu.“

Um Creditinfo :

Creditinfo var stofnað árið 1997 og er með starfsemi víðsvegar um heim. Öll þjónusta Creditinfo er í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins (95/46/EB) um meðferð og útsendingu persónuupplýsinga.

Creditinfo hefur verið tilnefnt til þátttöku og verið valið í fjölmörgum útboðum á vegum stofnana, þeirra á meðal er Alþjóðabankinn, IFC og Millenium Challenge Corporation. Stjórnarformaður Creditinfo Group er Nora Kerppola.