Sigþór Jónsson, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Sigþór starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Straums sjóða hf. Áður gegndi hann störfum framkvæmdastjóra Landsbréfa hf. og þar áður var hann forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni hf.

Samhliða ráðningu Sigþórs hefur verið gengið frá því að Sveinn Torfi Pálsson starfi við hlið hans sem aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. Sveinn Torfi hefur starfað hjá félaginu frá árinu 1993 og gegnt starfi framkvæmdastjóra frá því í september 2013.

Í tilkynningu er haft eftir Heiðrúnu Jónsdóttur, stjórnarformanns ÍV, að mikill fengur sé að því að fá Sigþór til liðs við félagið. Hann hafi yfirgripsmikla þekkingu, tengsl og reynslu af fjármálamarkaðnum, sem muni nýtast félaginu og viðskiptavinum þess vel.