Tveggja ára fyrningarfrestur gildir jafnt um ábyrgðarmenn sem þá sem fara í gjaldþrot. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli sem gæti haft víðtæk áhrif á innheimtuaðgerðir lánastofnana hér eftir. Þetta er fyrsti dómur Hæstaréttar í máli sem þessu og er hann því fordæmisgefandi.

Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Landsbankann til að greiða ábyrgðarmanni láns 517 þúsund krónur auk dráttarvaxta, sem og 800 þúsund krónur í málskostnað. Þá hefur fjögurra milljóna króna skuldabréf, sem gefið var út vegna uppgjörs ábyrgðarmannsins á kröfu landsbankans, verið ógilt. Með þessari niðurstöðu hefur Hæstiréttur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll fyrir ári síðan. Það var Landsbankinn sem áfrýjaði til Hæstaréttar. Þær 517 þúsund krónur, sem bankinn þarf að endurgreiða, er sú upphæð sem ábyrgðarmaðurinn hafði greitt af fjögurra milljóna króna skuldabréfinu.

Dómur Hæstaréttar er merkilegur fyrir þær sakir að tveggja ára fyrningarfrestur, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, er ekki einungis talinn gilda um þann sem fer í gjaldþrot (þrotamann) heldur einnig ábyrgðarmann. Fram að þessum dómi, sem féll í síðustu viku, var réttarstaða aðila í þessum málum óljós því Hæstiréttur hafði ekki dæmt í sambærilegu máli. Ástæðan fyrir því að ekki hafði fallið dómur í svona máli áður er að tveggja ára fyrningarfresturinn er tiltölulega nýtilkominn. Hann var settur inn í lögin með lagabreytingu í desember 2010. Fyrir þann tíma var fyrningarfresturinn tíu ár.

Ellilífeyrisþegi lagði bankann

Í þessu máli þá var það ellilífeyrisþegi um áttrætt sem höfðaði mál gegn Landsbankanum. Gamli maðurinn var ábyrgðarmaður á fimm milljóna króna skuldabréfi, sem gefið var út 10. febrúar 2009 og Landsbankinn keypti sama dag. Aðalskuldari bréfsins var tekinn til gjaldþrotaskipta í desember árið 2011 og lauk skiptum í bú hans í mars 2012. Landsbankinn hóf innheimtuaðgerðir á hendur ábyrgðarmanninum í ágúst 2014, eða eftir að tveggja ára fyrningarfrestur rann út.

Í desember 2014 samþykkti ábyrgðarmaðurinn að gefa út fjögurra milljóna króna skuldabréf til uppgjörs á ábyrgð sinni auk þess að greiða 270 þúsund í lögfræðikostnað vegna innheimtu gamla skuldabréfsins. Í dómi Héraðsdóms frá því í apríl í fyrra, segir „óumdeilt að útgáfa þess skuldabréfs hafi verið í beinum tengslum við framangreinda ábyrgð stefnanda á fyrra skuldabréfinu."

Í dómi Héraðsdóms er vísað í lög um gjaldþrotaskipti og sagt að með lagabreytingu árið 2010 hafi verið „ákveðið að fyrningartími allra krafna sem lýst sé í þrotabú verði sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu sé að ræða og er sá tími tvö ár."  Fyrningu krafna verði aðeins slitið með því að kröfuhafi, í þessu tilfelli Landsbankinn, höfði mál á hendur þrotamanninum innan fyrningarfrestsins og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Þetta gerði Landsbankinn ekki og segir í dómnum að fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanninum reiknist efir sömu reglum og nú hefur Hæstiréttur staðfest þetta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .