Á síðasta ári fagnaði tryggingafélagið Sjóvá hundrað ára afmæli sínu. Það var því kærkomið fyrir fyrirtækið að hafa hafnað efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni á afmælisárinu, en ánægjuvogin mælir ánægju viðskiptavina fyrirtækja í nokkrum mismunandi atvinnugreinum. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir viðurkenninguna vera mjög mikilvæga og kærkomna fyrir félagið. Að sögn Hermanns er þessi árangur þó alls engin tilviljun, heldur afrakstur stefnumótunar og markmiða sem starfsfólk fyrirtækisins mótaði í sameiningu.

„Ánægjuvogin fagnar í ár tuttugu ára afmæli og í öll þessi ár þá hafði Sjóvá oftast verið í fjórða eða þriðja sæti á meðal tryggingafélaga og aldrei ofar. Við höfum farið í þrenns konar stefnumótun síðan ég hóf störf hér, árin 2013, 2015 og svo stendur slík vinna yfir þessa dagana. Í stefnumótuninni árið 2015 einblíndum við á upplifun viðskiptavina; hvernig við birtumst viðskiptavinum okkar, ekki út frá því hvað hentaði okkur heldur út frá því hvað hentaði þeim. Út frá þessu settum við okkur markmið sem fólust í því  að þremur árum liðnum stefndum við að því að vera efst í Ánægjuvoginni, með tryggustu viðskiptavinina og fyrsta val á markaði. Við settum okkur því markmið að vera á toppnum í þessu öllu, en á þessum tíma vorum við ekki efst í neinum þessara mælikvarða."

Hermann segir að með margs konar markvissum markmiðum hafi fyrirtækið hafið vinnu í átt að þessum markmiðum og endað efst í Ánægjuvoginni núna í ár, en einnig í fyrra.

„Við náðum því að verða efst í Ánægjuvoginni ári fyrr en við stefndum að. Við erum að vaxa í ánægju viðskiptavina á milli ára og styrktum stöðu okkar í fyrsta sætinu sömuleiðis á þessu tímabili. Ef maður getur ekki skýrt út hvað veldur góðum árangri, gætu einhverjir sagt hann einskæra tilviljun. Við getum hins vegar farið mjög gaumgæfilega yfir það hvernig við höfum náð þessum árangri og allt okkar starfsfólk á auðvelt með að benda á þá þætti sem hafa skilað okkur þessum árangri. Allt starfsfólk tók þátt í markmiðasetningunni og því kom þetta ekki á óvart. Það var svo auðvitað mikil gleði hjá okkur með að hafa náð markmiðinu ári fyrr en stefnt var að, enda alltaf gaman þegar metnaðarfull markmið nást. Markmiðið felur þó ekki einungis í sér að vera efst í Ánægjuvoginni, heldur viljum við standa okkur í þjónustu og að viðskiptavinurinn upplifi það þannig. Hitt er svo afleidd stærð sem fylgir í kjölfarið."

Hermann sjálfur var svo verðlaunaður á dögunum af Stjórnvísi, en hann var valinn yfirstjórnandi ársins. „Þetta er mjög mikill heiður, enda er mikill fjöldi flottra stjórnenda sem voru tilnefndir. Ég tel þetta vera viðurkenningu á því sem við höfum verið að gera saman. Við erum með einvalið lið frábærra starfsmanna hjá Sjóvá og ég lít á þetta sem sigur liðsheildarinnar," segir Hermann.

Metnaðarfull markmið efla starfsandann

Að sögn Hermanns eru það ekki einungis viðskiptavinirnir sem eru ánægðir með Sjóvá, heldur sé starfsánægja einnig með því hæsta sem mælist hér á landi.

„Við erum að mælast mjög ofarlega í starfsánægju. Það eru margir þættir sem eru mikilvægir þegar kemur að starfsánægju. Við erum með flatt skipulag sem styður við þetta, við erum með opið vinnuumhverfi og boðleiðir eru stuttar. Starfsfólk er metið af því sem það gerir og hvað það leggur til, frekar en stöðuheitum. Það er mjög gaman að segja frá því að þegar við höfum farið í breiða stefnumótun þá hafa góðar hugmyndir borist frá öllum deildum og fólk fær tækifæri til þess að tjá sig og allt starfsfólk tekur þátt í þessari vinnu. Það sem við höfum lagt áherslu á í ráðningum á nýju starfsfólki, er að það passi vel inn í okkar menningu. Til dæmis er það mjög mikilvægt að starfsfólk í framlínu, sem þjónustar viðskiptavini, njóti þess að vera í samskiptum við þá.

Mér hefur einnig þótt gera mikið fyrir starfsandann að þora að setja metnaðarfull markmið, því glettilega mikið af slíkum markmiðum nást og það hefur jákvæð áhrif á starfsánægjuna. Það að vera þátttakandi og tilheyra hópi sem nær árangri veitir fólki ánægju. Svo verð ég að nefna að sá árangur sem við höfum náð í jafnréttismálum styður við starfsánægju og metnað alls starfsfólks."

Nánar er rætt við Hermann í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .