Sigurður Atli Jónsson forstjóri Kviku hefur tilkynnt stjórn bankans ákvörðun sína um að láta af störfum. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum.

Sigurður Atli hefur verið forstjóri Kviku frá 1. júlí 2011, en bankinn hét þá MP banki. Sigurður Atli leiddi samruna MP banka og Straums árið 2015, en sameinaður banki hlaut þá nafnið Kvika.

Í tilkynningunni segir að mjög góð samlegðaráhrif hafi náðst á fyrstu sex mánuðum eftir sameiningu. „Afkoma Kviku árið 2016 nam 2 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 34,7%. Sigurður Atli hefur stýrt bankanum í þá sterku stöðu sem hann er í og skilar mjög góðu búi, en hagnaður Kviku á fyrstu þremur mánuðum þessa árs er um 400 milljónir króna,“ segir í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Sigurðui atla að ánægjulegt sé hve vel hafi tekist til að búa til nýjan íslenskan banka.

„Einstakur árangur bankans grundvallast á skýrri framtíðarsýn um að vera sjálfstæður og sérhæfður fjárfestingabanki, samþættri stefnulegri áætlun, skipulegri uppbyggingu fyrirtækjamenningar og umfram allt frábæru starfsfólki.

Það er ljóst að þetta verkefni hefur tekist einstaklega vel og framtíð bankans er afar björt. Ársuppgjör Kviku í fyrra og afkoman núna á fyrsta fjórðungi eru til vitnis um það. Slíkar niðurstöður gera mig óneitanlega stoltan sem forstjóra og leiðtoga þessa góða hóps fólks sem ég hef haft ánægju af að starfa með. Ég vil þakka frábærum viðskiptavinum og fyrirtækjum í klasasamfélagi Kviku fyrir góð samskipti og gott samstarf.

Skýr markmið varpa ljósi á tækifærin. Núna er rétti tíminn fyrir mig til að gera breytingar. Ég óska starfsfólki Kviku, stjórn og hluthöfum allra heilla í framtíðinni“.