Sigurður B. Stefánsson hefur tekið sæti í stjórn Íslandssjóða hf. að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Sigurður B. hefur áratuga reynslu af eignastýringu og sjóðastýringu en hann er meðal annars stofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri VÍB auk þess sem hann starfaði á árum áður sem sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum.

Íslandssjóðir er elsta sjóðastýringarfyrirtæki á Íslandi, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka. Félagið stýrir fjölda verðbréfa- og fjárfestingasjóða og eignir í virkri stýringu hjá félaginu eru að verðmæti yfir 200 milljörðum króna. Yfir 10.000 sparifjáreigendur og fjárfestar ávaxta eignir sínar í sjóðum félagsins.

Ánægjulegt að fá Sigurð heim

„Það er mikið gleðiefni að fá Sigurð B. Stefánsson inn í stjórn Íslandssjóða en þeir eru vandfundir sem búa yfir álíka þekkingu á eignastýringu og Sigurður,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

„Til viðbótar við 35 ára reynslu af stýringu sjóða og eignasafna hefur hann í gegnum árin átt stóran þátt í að auka þekkingu íslenskra sparifjáreigenda á eignastýringu og sparnaði. Það er því sérstaklega ánægjulegt nú að fá Sigurð B. aftur „heim“ til Íslandssjóða.“