Sigurður Bollason fjárfestir og Don McCarthy, breskur fjárfestir og fyrrverandi stjórnarformaður House of Fraser, hafa keypt stóran hlut í Vátryggingafélagi Ísland, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Fyrr í dag var greint frá því að 3,67% hlutur í VÍS hafi verið seldur fyrir opnun markaða í dag fyrir um 700 milljónir króna. Þá var ekki vitað hverjir kaupendur væru, en það munu vera þeir Sigurður og McCarthy.

Mikil velta var með bréf VÍS í dag og nam hún 1.013 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 1,86%.

Sigurður Bollason keypti ásamt Magnúsi Ármann og Kaupþingi 40% hlut í tískufyrirtækinu Karen Millen árið 2001. Karen Millen var svo seld til Oasis Group, sem var í meirihlutaeigu Baugs og varð svo hluti af Mosaic Fashions. Árið 2005 eignaðist McCarthy ásamt öðrum tískufyrirtækið Rubicon Retail og var forstjóri og stjórnarformaður þess félags þar til Mosaic Fashions keypti Rubicon árið 2006.