Jón Steinar Gunnlaugsson hefur um árabil verið skotspónn margra ritfærra manna, sérstaklega á vinstri væng stjórnmálanna. Og ef fólk ætlar að skora nokkur vildarvinastig í þeim hópi er auðvelda leiðin að skrifa um hæstaréttardómarann. En ekki eru allir tilbúnir að stökkva á heykvíslavagninn þótt þeir séu í sjálfu sér engir skósveinar Jóns.

„Þessi kynni mín af Jóni Steinari Gunnlaugssyni gera það að verkum, að ég get fullyrt að þar fer vandaður maður og einn af hæfustu lögfræðingum landsins; lögfræðingur sem nálgast úrlausn mála á forsendum lögfræðinnar en hvorki því sem hæfir pólitískum skoðunum vina hans né þjóðarsálinni hverju sinni. Slík vinnubrögð eru sjaldnast ávísun á vinsældir og aðdáun af hálfu þeirra sem lifa á innistæðulausu snakki, aðdróttunum og dylgjum,“ skrifar Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður á Pressuna.