Sigurður Páll Hauksson tók við sem forstjóri endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækisins Deloitte 1. júní síðastliðinn af Þorvarði Gunnarssyni. Sigurður Páll á að baki meira en 20 ár í endurskoðun og ráðgjöf og hefur verið meðeigandi Deloitte frá árinu 2003. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1994 og lauk löggildingu í endurskoðun árið 1998.  Sigurður Páll var varaformaður og síðar formaður Félags löggiltra endurskoðenda árin 2009 til 2013. Hann er kvæntur Guðbjörgu Jóhannesdóttur, sóknarpresti í Langholtskirkju og eiga þau fimm börn.

Deloitte á Íslandi fagnar 20 ára afmæli í ár. Hjá fyrirtækinu starfa um 190 starfsmenn á átta starfsstöðvum víðs vegar um landið.  Sérfræðingar Deloitte bjóða upp á víðtæka þjónustu og ráðgjöf á sviði endurskoðunar og reikningsskila, ásamt rekstrarráðgjöf, fjármálaráðgjöf, skatta- og lögfræðiráðgjöf, ráðgjöf á sviði upplýsingatækni- og öryggismála auk sérsniðinnar þjónustu fyrir smærri fyrirtæki.

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við öll þau spennandi verkefni sem framundan eru.  Við tilheyrum stærsta endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki heims og höfum á að skipa einvala liði starfsmanna að ógleymdum traustum og öflugum viðskiptavinum.  Með auknum krafti í atvinnulífinu er þörf fyrir vandaða og lausnamiðaða sérfræðiþjónustu og leggur Deloitte metnað sinn í að að veita fyrirtækjum af öllum stærðum framúrskarandi þjónustu, innanlands sem erlendis,“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte.