Sigurður Sæberg Þorsteinsson, sem hefur gengt starfi deildarstjóra rekstrarlausna Advania undanfarið ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs fyrirtækisins en alls starfa um 50 manns á sviðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Advania.

Sigurður starfaði sem sölu- og markaðsstjóri þekkingar frá árinu 2013 áður en hann hóf störf hjá Advania. Einnig hefur hann verið verkefnastjóri hjá Anza, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Líflands og deildarstjóri flugrekstrarsviðs Air Atlanta á Íslandi. Hann er með B.Sc. í viðskipta- og markaðsfræðum frá Auburn Montgomery háskólanum í Bandaríkjunum.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Sigurð í framkvæmdastjórn. Hann hefur starfað hjá félaginu í rúmt ár og við vitum vel hvers megnugur hann er. “ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. „Væntingar viðskiptavina aukast sífellt og því er mikilvægt fyrir okkur að vinna stöðugt að því að laga sölu- og þjónustuframboð að kröfum þeirra. Þarna á Sigurður eftir að koma sterkur inn, enda með mikla reynslu úr heimi upplýsingatæknilausna.“

„Við stöndum á spennandi tímamótum hvað varðar þjónustu- og söluferli upplýsingatæknilausna“ segir Sigurður. „Advania er einstakt fyrirtæki sem leggur höfuðáherslu á að veita viðskiptavinum félagsins framúrskarandi þjónustu. Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem framundan eru með öllu þessu frábæra fólki sem starfar á þjónustu- og markaðssviði Advania.“

Sigurður er kvæntur Tinnu Margréti Rögnvaldsdóttur, starfsmanni Global Quality hjá Actavis. Saman eiga þau þrjú börn.