Átta skip voru við makrílveiðar við Vestmannaeyjar í gær en veiði var fremur dræm. Huginn VE var á landleið með frystan makríl og sagði Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri í samtali við Fiskifréttir að þetta væri dálítið snúið því makríllinn gæfi sig stundum í nokkrar klukkustundir en hyrfi svo að vörmu spori. Auk þess væri allt vaðandi í síld á veiðisvæðinu.

„Við reyndum að koma okkur undan síldinni en hún virðist vera út um allan sjó. Hún gengur vonandi grynnra eins og undanfarin ár og þá situr makríllinn frekar eftir.“

Á miðunum voru Brimnes, Kap, Álsey, Heimaey, Víkingur, Vilhelm Þorsteinsson, Venus og Huginn.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem komu út í dag.