Síldarvinnslan hefur aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Nú á Síldarvinnslan rúmlega 75% í félaginu en bræðurnir og skipstjórarnir Gísli og Runólfur Runólfssynir eiga tæplega 25%. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Stofnendur útgerðarfélagsins voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en þegar þau voru fallin frá áttu börn þeirra 62% í félaginu. Þrjú barnanna ákváðu að selja sína eignarhluta í félaginu nú í haust og festi Síldarvinnslan kaup á þeim, en Síldarvinnslan hefur átt 38% í félaginu frá árinu 2003 eða frá samrunanum við SR-mjöl.

Gísli Runólfsson segir í viðtali á vef SVN að ánægja ríki með þessi málalok. „Við höfum verið að vinna með Síldarvinnslunni um langt skeið og það samstarf hefur verið afar gott og farsælt. Við bræðurnir og áhöfnin á Bjarna Ólafssyni teljum að það hafi vart verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu. Þetta tryggir að Bjarni Ólafsson verði gerður út með líkum hætti og hefur verið og allt samstarf um útgerð hans hefur verið traust og til fyrirmyndar að mínu mati,“ sagði Gísli.