Síldveiðin fer vel af stað austur af landinu og vinnsla gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem síldin er flökuð og fryst.

Þetta kemur fram í frétt Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Þar segir að uppúr hádegi í gær kom Börkur NK með 1.200 tonn af síld til vinnslu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta sé stór og gullfalleg síld.

„Við fengum aflann í fjórum holum við og utan við Glettinganestotuna. Þarna var svolítið líf og við toguðum aldrei lengi eða frá tveimur og hálfum og upp í fimm tíma. Það má segja að síldveiðin hafi farið vel af stað og síldin er afar heppileg til vinnslu. Þetta er yfir 400 gramma síld,“ segir Hjörvar.

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun og er þetta önnur veiðiferð hans á síldarmiðin austur af landinu. Aflinn er 680 tonn og verður væntanlega byrjað að vinna hann á morgun.

Beitir NK mun halda til síldveiða síðar í dag.