Silicor Materials hefur ákveðið að hægja á undirbúningi fyrirhugaðs sólarkísilvers á Grundartanga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Tímaáætlun verksmiðjunnar og skipulag verða tekin til endurskoðunar, en vinna við verksmiðjuna gæti hafist á síðari hluta næsta árs.

Tafir á öðrum áfanga fjármögnunar og miklar kostnaðarhækkanir á Íslandi eru helstu ástæður ákvörðunarinnar. Áfram verður unnið að framgangi verkefnisins og aðrar leiðir kannaðar til hlítar.

Undanfarin misseri hefur Silicor Materials undirbúið byggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Sólarkísilverið byggir á framleiðsluferli sem fyrirtækið hefur þróað síðan 2006 og hefur einkaleyfi á. Framleiða á sólarkísil með ódýrari og umhverfisvænni aðferð sem útheimtir minni orku en hefðbundnar aðferðir. Sólarkísill er notaður í sólarhlöð til að virkja sólarorku sem stuðlar að sjálfbærri þróun um allan heim.

Terry Jester, stjórnarformaður Silicor Materials, segir það vera vonbrigði að hægja þurfi á undirbúningi verksmiðjunnar, en að aðstæður bjóði ekki upp á annað.

„Það liggur fyrir, eins og skýrt hefur komið fram í fjölmiðlaumræðu að undanförnu, að verulegt átak þarf til að sporna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum og þeim alvarlegu afleiðingum sem þær geta haft á lífsskilyrði á jörðinni. Með því að nýta orku sólar í auknum mæli til raforkuframleiðslu er hægt að vinna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum. Fyrirhuguðu sólarkísilveri Silicor er ætlað að gera sólarorku að umhverfisvænni og ódýrari valkosti sem stuðlar að aukinni nýtingu hennar.“

„Það eru vonbrigði að Silicor þurfi nú að hægja á undirbúningi verkefnisins og endurskoða útfærslur en aðstæður bjóða ekki upp á annað. Ég er þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem sem við höfum unnið með og stutt hafa vel við verkefnið og vonast til að við getum unnið með þeim áfram. Ísland er frábær staðsetning fyrir sólakísilver þar sem til staðar er vel menntað starfsfólk, meginhráefni eru framleidd á landinu og sterk áhersla á sjálfbærni og grænar lausnir. Þá er fríverslunarsamningur við Kína einnig mjög jákvæður. Þrátt fyrir þessa töf erum við enn bjartsýn á að af byggingu verksmiðju á Íslandi geti orðið.“