Þrjátíu gámar verða fluttir með fyrstu lestinni sem flytur vörur landleiðina alla leið frá Bretlandi til Kína, en þeir eru meðal annars fullir af Viský og öðrum drykkjum, vítamínum og lyfjum og barnavörum.

Lestin mun fara í gegnum Ermasundsgöngin til Frakklands, þaðan í gegnum Belgíu og til Duisburg í Þýskalandi, þar sem InterRail tekur við farminum í gegnum Pólland, Hvítarússland, Rússland, Kazahkstan og skila honum í Yiwu í austurhluta Kína 27. apríl næstkomandi.

Hluti af 1,5 milljarða punda umskipunarmiðstöð

Lestin lagði af stað í dag, um þremur mánuðum eftir að fyrsta lestin frá Kína kom á áfangastað í London, en að því er segir í frétt Evening Standard er ódýrara að senda vörur með lest heldur en flugi, á sama tíma og það er fljótlegra heldur en með skipi.

Þjónustan er hluti af áætlunum Kína um að endurvekja Silkileiðina fornu en um hana hófust viðskipti milli austurs og vesturs fyrir meira en 2.000 árum.

Styrkir viðskiptatengsl við umheiminn

Ráðherra alþjóðaviðskipta í Bretlandi, Greg Hands, segir lestartengingu landanna sýna enn styrkleika viðskiptatengsla landsins við umheiminn.

„Þetta sýnir þá miklu alþjóðlegu eftirspurn sem er eftir breskum vörum og kemur á sama tíma og höfnin í London tekur við fyrsta gámaflutningaskipinu frá Kína,“ sagði ráðherann og vísaði í 1,5 milljarða punda framkvæmdir við DP World London Gateway höfnina.

Framkvæmdastjóri DP World, Sultan Ahmed Bin Sulayem sagði þetta mikilvæga stund í viðskiptasögunni og að félagið hlakki til að styðja við aukna verslun milli Kína, Bretlands og umheimsins.

„DP World London Gateway, sem er ein af stærstu umskipunarmiðstöðvum Bretlands, er hönnuð til að hægt sé að flytja inn og út vörur til Bretlands, hvort sem er með skipum eða lestum á hraðvirkari og öruggari hátt en nokkru sinni áður,“ sagði Bin Sulayem.