Simbabveski dollarinn, sem er einn verðlausasti gjaldmiðill í heimi, verður gerður fullkomlega verðlaus af yfirvöldum þann 30. september næstkomandi. Íbúum landsins verður ætlað að nota fimm erlenda gjaldmiðla í staðinn. Financial Times greinir frá þessu.

Öllum innlánsreikningum, með innistæðu á bilinu frá núll til 175 billjarði (175.000.000.000.000.000) simbabve-dollara, verður skipt út fyrir reikninga með 5 bandaríkjadölum. Íbúar Simbabve hafa nú þegar að miklu leyti skipt yfir í aðra gjaldmiðla í viðskiptum sín á milli. Árið 2014 voru fimm erlendir gjaldmiðlar gerðir að lögeyri í landinu; kínverskt yuan, indverska rúpían, japanska jenið, ástralski dollarinn og bandaríkjadalur. Þar að auki er suður-afrískt rand talsvert notað af íbúum Simbabve.

Verðbólgan í Simbabve er gjarna til umfjöllunar í kennslubókum í hagfræði, en óðaverðbólgan sem ríkt hefur í landinu undanfarin ár er ein sú skæðasta í sögunni. Hagstofa Simambve hefur ekki birt verðbólgumælingar síðan 2008 en þá mældist verðbólgan 231 milljón prósent. Sama ár náði verðbólgan 100 prósentum á dag.