Hagnaður Símans á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam um 978 milljónum króna samanborið við 905 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtæksins.

Tekjur á fjórðungnum námu 6.969 milljónum króna samanborið við 6.956 milljónir króna á sama tímabili 2017. Leiðrétt fyrir seldri starfsemi hækka tekjur um 51 milljón króna á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.397 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 2.387 milljónir króna á sama tímabili 2017 og hækkar því um 10 milljónir króna eða 0,4% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 34,4% fyrir þriðja ársfjórðung 2018 en var 34,3% á sama tímabili 2017.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.515 milljónum króna á 3F 2018 en var 2.618 milljónir króna á sama tímabili 2017. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.266 milljónum króna á 3F 2018 en 2.178 milljónum króna á sama tímabili 2017.

Vaxtaberandi skuldir námu 17,1 milljarði króna í lok 3F 2018 en voru 18,4 milljarðar króna í árslok 2017. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 16,5 milljarðar króna í lok 3F 2018 og lækka um 1,2 milljarða króna frá árslokum 2017.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 62,1% í lok fjórðugsins og eigið fé 37,6 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri Símans segir í afkomutilkynningu að hann sé ánægður með rekstur samstæðunnar.

„Samkeppnin um íslenska neytendur hefur sjaldan verið harðari, en viðskiptavinum fjölgar áfram milli ársfjórðunga. Sjónvarpafurðir okkar njóta sérstakrar hylli og eins skipta talvert fleiri farsímanotendur yfir til Símans um þessar mundir en þeir sem fara frá okkur. Sérstaklega er gleðilegt að bjóða yngri viðskiptavini velkomna, sem nýta sér krakkakort og fyrirfram greiddu lausnina Þrennu. Internet viðskiptavinum hefur jafnframt fjölgað og gagnanotkun eykst jafnt og þétt, hvort sem er í farsíma eða fastlínu. Upplýsingatæknihluti samstæðunnar átti góðan fjórðung og Míla heldur áfram að byggja upp ljósleiðaranet sitt á hagkvæman hátt," segir Orri.