Hagnaður Símans jókst um 11,7% á milli ára og jókst úr 2.755 milljónum árið 2016 í 3.076 milljónir árið 2017.

Heildartekjur félagsins drógust þó saman á milli ára en þær námu 28.433 milljónum árið 2017 samanborið við 29.572 milljónir árið 2016. Í tilkynningu frá Símanum segir að talsverðar breytingar hafi orðið á rekstri samstæðunnar sem skýri tekju samdrátt.

Á fjórða ársfjórðungi var hagnaður nokkuð jafn milli ára eða 607 milljónir árið 2017 samanborið við 601 milljón króna á sama tímabili árið á undan.

Þá dróst handbært fé félagsins nokkuð saman á milli ára en eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.285 milljónum króna í lok árs 2017 samanborið við 2.106 milljónir í lok ársins á undan. Hreinar vaxtaberandi skuldir drógust einnig saman um 1,6 milljarð en þær voru 17,7 milljarðar í lok árs 2017.

Eiginfjárhlutfall Símans var 59,9% í lok árs 2017 og eigið fé 36,3 milljarðar króna.

„Við erum stolt af afkomu Símans og dótturfélaga árið 2017. Stefna undanfarinna ára hefur verið að skerpa rekstur samstæðunnar utan um kjarnastarfsemina sem hefur skilað góðum árangri á hörðum samkeppnismarkaði. Hagnaður ársins jókst um tæp tólf prósent milli ára og EBITDA framlegð samstæðunnar er yfir 30% af tekjum. Tekjur lækkuðu vegna lægri verða á farsímamarkaði, minni búnaðarsölu og aflagðrar starfsemi. Kostnaðurinn lækkaði hins vegar enn hraðar, til að mynda dróst launaliðurinn saman um 642 milljónir milli ára. Skuldir lækkuðu á árinu um rúma fimm milljarða,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans í tilkynningu.