Síminn hagnaðist um 887 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi ársins sem er aukning um 14,5% frá fyrra ári. Þá var EBIDTA 2.231 milljón króna samanborið við 2.099 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Eignir Símans eru tæplega 60,6 milljarðar og lækka lítillega frá áramótum. Eigið fé jókst um 893 milljónir króna og stendur í 37,1 milljarði. Skuldir námu 23,4 milljörðum króna.

Handbært fé félagsins eykst um 87 milljónir frá áramótum og stendur í 805 milljónum króna en er þó öllu lægra en handbært fæ í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 þegar það nam 4.264 milljónum.

Tekjur Símans námu í heildina 6.874 milljónum króna. Eftir rekstrarþáttum skiptast þær í 1.541 milljón vegna farsímaþjónustu, 498 milljónir vegna talsímaþjónustu, 2.260 milljónir vegna gagnaflutnings, 1.167 milljónir fyrir sjónvarpsþjónustu, 702 milljónir vegna upplýsingatækni, 427 milljónir í vörusölu og 279 milljónir vegna annarra starfsþátta. Helstu breytingar á tekjum milli ára eru þær að tekjur vegna gagnaflutninga og sjónvarpsþjónustu aukast en tekjur af upplýsingatækni og talsíma lækka á milli ára.

„Árið 2018 fer vel af stað. Tekjur aukast milli ára og afkoma batnar. Sú jákvæða þróun á sér ýmsar skýringar. Yngri viðskiptavinum hefur fjölgað hratt í farsíma undanfarna mánuði, sérstaklega vegna velgengni Þrennunnar. Sjónvarpsþjónusta Símans nýtur mikillar hylli hjá kröfuhörðum íslenskum neytendum. Breytingarnar á afþreyingarþjónustu félagsins á undanförnum árum hafa haft það að markmiði að auka þægindi og val viðskiptavinarins, meðal annars um það hvenær hann horfir á sjónvarp og hvaða efni hann kýs. Sú stefna hefur hitt í mark, eins og breytt notkunarmynstur á þjónustu okkar sýnir. Stóraukin gagnanotkun erlendra ferðamanna á Íslandi veldur því einnig að reikitekjur hafa náð þeim upphæðum sem þær voru í á sama fjórðungi í fyrra, fyrir roam-like-at-home reglugerðarbreytinguna. Sjóðstreymi samstæðunnar er gott og stendur vel undir fjárfestingum félagsins og breyttum efnahagsreikningi, sem var minnkaður í fyrra þar sem dregið var bæði úr lánsfjármögnun og handbæru fé,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.