Heildartekjur fjarskiptamarkaðarins námu 54.834 milljónum króna á síðasta ári og jukust þær um 5% á milli ára. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um fjarskiptamarkaðinn. Um 29% af heildartekjum fjarskiptafélaga koma af farsímarekstri en sú hlutdeild hefur minnkað jafnt og þétt á síðustu árum.

Í fyrsta skipti á síðasta ári var Nova með flestar farsímaáskriftir eða 34,6% af öllum farsímaáskriftum. Þar á eftir kemur Síminn, sem áður trónaði á toppnum, með 33,4% og svo Vodafone með 27,4% af markaðnum.

Hvað tekjur varðar þá er Nova eftirbátur annars vegar Vodafone og hins vegar Símans. Ástæðan er að mestu sú að þau fyrirtæki sinna töluvert fjölbreyttri þjónustu en Nova. Samkvæmt upplýsingum frá Nova námu heildartekjur þess á síðasta ári 7.575 milljónum króna en það er um 14% af heildartekjum fjarskiptamarkaðarins.

Heildartekjur Símans námu 29.868 milljónum króna á sama tíma eða um 54% af öllum markaðnum og tekjur Vodafone 13.724 milljónum eða um 25% af markaðnum. Heildartekjur 365 á sama tíma námu 11.160 milljónum á sama tíma en fyrirtækið gefur ekki upp hversu stór hluti tekna þess kemur frá fjarskiptaþjónustu og því erfitt að leggja mat á hlutdeild þess af heildartekjunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .