Flest ný sjónvörp sem seld eru í dag er með 4K tækninni, sem þýðir að þetta eru sjónvörp sem geta sýnt sjónvarpsefni í mjög góðri upplausn eða 3.840x2.160 punktum. Til samanburðar bjóða hefðbundin HD-sjónvörp upp á 1.920x1.080 punkta upplausn. Hægt hefur verið að nálgast nokkuð af 4K sjónvarpsefni á Netflix en framboðið af svona efni er enn sem komið er frekar takmarkað. Þróunin er samt mjög ör á þessu sviði.

Í tilkynningu frá Símanum segir að tímamót séu að verða í sjónvarpsútsendingum hér á landi því að frá og með deginum í dag sé hægt að horfa á sjónvarpsstöðina InSightTV í 4K í gegnum 4K myndlykla Símans. Sjónvarpsstöðin InSightTV sendir út lífsstílsefni allan sólarhringinn og er um tilraunaútsendingu að ræða fyrst um sinn.

Í tilkynningunni er haft eftir Davíð Þór Gunnarssyni, forstöðumanni hugbúnaðarþróunar hjá Símanum, að sérfræðingar fyrirtækisins hafi síðustu misseri verið að undirbúa sjónvarpsþjónustu Símans fyrir 4K útsendingar.

„Síminn brýtur blað í íslenskri sjónvarpssögu þegar þessi fyrsta 4K últra HD sjónvarpsrás í heiminum bætist í hóp hátt í 70 erlendra sjónvarpsstöðva Símans," er haft eftir Pálma Guðmundssyni, sjónvarpsstjóra Símans, í tilkynningu.