Gagnaveitan, dótturfélag Orkuveitunnar og Míla, dótturfyrirtæki Símans, standa nú í deilum í fjölmiðlum, en Orri Hauksson, forstjóri Símans gagnrýnir að Gagnaveitan neiti samstarfi um lagningu og rekstur ljósleiðara.

Jafnframt gagnrýnir Orri að Símanum bjóðist einungis að kaupa aðgang að kerfi Gagnaveitunnar í heilu lagi, en félagið vill fá að kaupa aðgang að aðeins völdum hluta þess að því er Fréttablaðið greinir frá.

Orkuveitan hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeim ásökunum Orra er hafnað að Gagnaveitan vinni gegn lögum og misnoti opinbert fé til að hindra samkeppni.

„Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint Mílu sem markaðsráðandi í fast­línutengingum og hefur verið það um langt árabil,“ segir Orkuveitan sem segir Gagnaveituna ekki markaðsráðandi í fastlínutengingum, líkt og Míla sé. „Vegna þeirrar stöðu og vegna sáttar sem Síminn/Míla gerðu við Samkeppniseftirlitið vegna brota hvíla kvaðir á fyrirtækjunum umfram önnur á markaði.“

Orkuveitan segir það eitt af markmiðum sýnum að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði, sem þeir segjast ná með tilkomu eigin kerfis. Kópavogsbær hefur þurft að grípa inn í deilur fyrirtækjanna og skikkaði bærinn Gagnaveituna til að gefa Símanum kost á að vera með í skurðum sem voru grafnir undir ljósleiðara í Kópavogi í júní, svo ekki þyrfti að grafa upp sömu göturnar í tvígang.