Síminn og SidekickHealth hafa undirritað samstarfssamning sem gerir heilbrigðistæknilausnina SidekickHealth hluta af vöruframboði Símans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

SidekickHealth er lausn þróuð af íslenska heilbrigðistæknifyrirtækinu SidekickHealth sem fær notendur til að huga betur að heilsunni á marga vegu með hjálp leikjavæðingar. Nýttar eru klínískar rannsóknir, atferlishagfræði og gagnagreiningar til að hvetja notendur til að ná settum markmiðum. Virkni notenda er verðlaunuð með ýmsum hætti og fá börn í neyð hreint vatn í samræmi við stigasöfnum notenda, í gegnum samstarfsaðila SidekickHealth.

Fyrirtækið er stofnað af læknunum Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni en þeir ákváðu að vinna við að fyrirbyggja lífstílstengda sjúkdóma í stað þess að vinna með afleiðingar þeirra hjá sjúklingum sínum. Þróunarstjóri er Ólafur Viggósson, sem hefur víðtæka reynslu úr leikja- og hugbúnaðarþróun.

Forritið styður við notandann og hvetur hann áfram, ekki bara í almennri hreyfingu heldur hvetur það einnig til slökunar, núvitundaræfinga og beinir notendum í átt að hollara matarræði.

„Við höfum lengi skoðað og verið í ýmsum tilraunaverkefnum í heilbrigðistækni, þar liggja fjölmörg tækifæri sem geta nýst mörgum t.d. við að ná tökum á streitu, búa lengur á eigin heimili og að efla eigin heilbrigði. Líflínan er gott dæmi um slíkt verkefni sem við unnum í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri sem snýr að heilbrigðisþjónustu við sjómenn en þar hjálpar tæknin og styttir skrefin þegar að veikindi eða slys verða úti á hafi. Samstarf Símans við SidekickHealth er enn eitt skrefið í þessa átt, að tæknin og læknavísindin vinni saman öllum til góða. Við erum spennt fyrir þessu samstarfi og erum þess fullviss að margir munu njóta góðs af því," segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

,, Okkar starf í SidekickHealth snýst um að nýta tæknina til að dreifa og persónusníða heilbrigðismeðferð og lífsstílsþjálfun. Erlendis höfum við unnið með lyfjafyrirtækjum og tryggingafélögum og hér á landi og erlendis höfum við unnið með tugum fyrirtækja í því að efla heilsu og líðan starfsfólks - og bæta um leið framleiðni og draga úr veikindafjarvistum. Síminn hefur mjög skýra sýn um að taka þátt í þeirri byltingu sem er hafin í því að nýta tækni til að bæta heilsu á stórum skala og er því mjög spennandi samstarfsaðili fyrir okkur hér á Íslandi," segir Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri SidekickHealth.