Stjórnir Símans og On-Waves hafa samþykkt að sameina félögin tvö undir nafni og kennitölu Símans. Síminn er því yfirtökufélagið. Samruninn miðast við byrjun þessa árs og tekur hið sameinaða félag við öllum rekstri, eignum, skuldum, réttindum og skyldum hins yfirtekna félags frá þeim tíma. On-Waves sérhæfir sig í farsímaþjónustu um borð í skipum um heim allan.

Samruninn felur í sér að eigendur hins yfirtekna félags láta af hendi allt hlutafé þess. Hið yfirtekna félag er að níu tíundu hlutum í eigu Símans hf. Síminn hf. fær því ekkert endurgjald fyrir hlutafé sitt. 10% heildarhlutafjár hins yfirtekna félags er í eigu annars aðila sem fær sem endurgjald hlutafé í Símanum hf. að nafnverði 8,7 milljónir króna. Hlutafé yfirtökufélagsins breytist því ekki vegna samrunans, en Síminn hf. afhendir eigin hluti sem endurgjald til minnihluthafans að því er kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar.