Hagnaður Símans á öðrum ársfjórðungi nam 790 milljónum króna borið saman við 716 milljónir á sama tímabili árið 2016. Hagnaður fjarskiptafélagsins jókst því um 10,3% milli ára. Þetta kemur fram í nýju árshlutauppgjöri fyrirtækisins.

Hagnaður Símans á fyrstu sex mánuðum ársins nam 1.564 milljónum króna og jókst um 52,4% frá sama tímabili í fyrra.

Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2017 námu 7.254 milljónum króna samanborið við 7.475 milljónir króna á sama tímabili 2016. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.191 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 samanborið við 1.954 milljónir króna á sama tímabili 2016 og hækkar því um 237 milljónir króna eða 12,1% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 30,2% fyrir annan ársfjórðung 2017 en var 26,1% á sama tímabili 2016.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 54,9% í lok annars ársfjórðungs 2017 og eigið fé 35,3 milljarðar króna.