Auk þess að kljást við mikla samkeppni, starfa fjarskiptafyrirtæki á markaði sem er í sífelldri þróun og tæknilegar lausnir geta verið nokkuð fljótar að úreldast. Að sögn Stefáns Sigurðssonar, forstjóra Sýnar, eru fjarskiptafyrirtæki stödd í miðju mikilla samfélagsbreytinga.

„Fjórða iðnbyltingin er drifin áfram af fjarskiptum. Við höfum verið að takast á við miklar breytingar á viðskiptamódeli fjarskipta frá því fyrir nokkrum árum þegar það var aðallega verið að selja símtöl og SMS sem breyttist í að gagnamagn varð allsráðandi. Núna er þróunin í átt að því að nálgast þarfir viðskiptavina með tilliti til þess hvað þau vilja gera við fjarskiptatenginguna sína. Ég tel að þróunin sé að færast í þá átt og það þýðir að fjarskiptafyrirtækin taki sér stærra hlutverk á hinum ýmsu sviðum. Styrkleiki fjarskiptafyrirtækja felst í því að þau hafi getu til þess að veita mjög mörgum þjónustu í einu og hafa þar með tækifæri til þess að taka að sér stærra hlutverk. Ég sé fyrir mér að fjarskiptafyrirtækin muni áfram hafa þetta öfluga grunnhlutverk að tryggja það að tæknin fylgi breytingunum en að sama skapi í samstarfi við aðra leiða þessar breytingar og hjálpa viðskiptavininum að taka þátt í þeim, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki."

Aðlögunin að breyttum tímum hafin

Hegðun neytenda varðandi hvernig þeir horfa á og nálgast sjónvarpsefni hefur gjörbreyst á undanförnum árum. Erlendar streymisveitur líkt og Netflix, sem veita innlendum fyrirtækjum sem framleiða sjónvarpsefni samkeppni, hafa komið inn á markaðinn með látum og átt stóran þátt í þessum breytingum. Mikið hefur dregið úr vægi línulegrar dagskrár og margt fólk kýs að horfa á sjónvarpsefni ólínulega þegar því hentar. Stefán segir að Sýn sé í sífelldri þróun til að laga sig að þessum breytingum og hann telur að línulegt og ólínulegt sjónvarpsefni vinni vel saman.

„Aðlögunin að breyttum tímum er hafin. Við erum með okkar eigin streymisveitu og höfum verið að bjóða upp á hana með sjónvarpsstöðvunum okkar eins og Stöð 2 og öðrum línulegum sjónvarpsstöðvum, sem eru þó í sjálfu sér orðnar ólínulegar þar sem það er hægt að nálgast allt línulega sjónvarpsefnið í gegnum streymisveituna okkar. Það virkar ekki þannig að það komi ólínulegar streymisveitur og þá deyi allt línulegt eða öfugt. Gott dæmi um þetta er Spotify og útvarp. Við sjáum að það er enn verið að stofna nýjar útvarpsstöðvar þrátt fyrir mikla útbreiðslu Spotify. Þó að fólk kjósi oft að horfa á efni ólínulegt þá vill fólk einnig hafa aðgang að línulegri dagskrá. Sem dæmi er misjafnt hvernig ég horfi á sjónvarp. Stundum vil ég bara setjast niður og horfa á nákvæmlega það sem ég vil en stundum langar mig bara að setjast niður fyrir framan sjónvarpið og athuga hvað er í sjónvarpinu. Sjónvarpshegðun barnanna minna er einnig mjög svipuð. Netflix er vissulega með mjög stóra markaðshlutdeild á Íslandi og það hefur verið að gerast síðustu árin án þess að fólk kaupi annað sjónvarpsefni.

Ég man eftir greiningu þar sem tekin er saman meðaleyðsla Bandaríkjamanna í afþreyingu. Það voru yfir 100 dalir, sem er auðvitað miklu hærra en mánaðargjaldið af Netflix. Það endurspeglar að fólk er ekki bara með eina þjónustu í dag, hvort sem er í Bandaríkjunum eða Íslandi, heldur er það með margar þjónustur og raðar saman sínum pakka eftir sínum þörfum. Fólk vill því oft blanda þessu saman og vera með aðgang að íslensku efni til dæmis í gegnum Stöð 2, íþróttaefni í gegnum Stöð 2 Sport og svo erlendu efni í gegnum Netflix, til að vera viðræðuhæft á Twitter," segir Stefán og hlær.

Deila við Símann

Vodafone og Síminn, tvö af stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, hafa í gegnum tíðina eldað grátt silfur og þónokkur dómsmál sprottið upp vegna deilna milli fyrirtækjanna. Stefán segir spurður hvað valdi þessum núningi milli fyrirtækjanna, að hann telji ástæðuna vera einfalda: Síminn á Mílu.

„Allt í rekstri Símans snýst um Mílu, að vernda tengingar í Mílu. Þess vegna reka þeir þá stefnu að vera eingöngu með sitt sjónvarp á sínum kerfum og ég held að þetta eigi allt rót sína að rekja til þeirrar ákvörðunar á sínum tíma að selja grunnnetið með Símanum og við séum því öðruvísi að þessu leyti. Þetta er í raun núningur sem hefur átt sér stað í 20 ár sem við erum ennþá að sjá í dag vegna þess hvernig hönnunin á markaðnum er. Síminn vill ekki skipta við Gagnaveitu Reykjavíkur heldur vill byggja upp sitt eigið innviðakerfi.

Eftir rúmlega tveggja ára deilu úrskurðaði Póst- og fjarskiptastofnun í einu af þessum málum og taldi Símann brotlegan við fjölmiðlalög með því að beina sjónvarpsvöru sinni eingöngu að eigin dreifkerfum og dreifikerfum Mílu. Símanum virðist finnast að Póstog fjarskiptastofnun hafi ekki neitt vald til þess að segja til um þetta. Ég hef sjálfur unnið í fjármálageiranum og ímynda mér að ef að Fjármálaeftirlitið myndi úrskurða í máli eftir tveggja ára rannsókn og banki myndi segjast vera ósammála yrði eitthvað sagt. Þetta er grundvallar prinsippmál, þar sem ég er hræddur um það að ef eftirlitsaðilar leyfa Símanum að komast upp með að hanna markaðinn í ósamræmi við fjölmiðlalög, þá mun það einfaldlega koma niður á neytendum út af því að þá mun myndast vígbúnaðarkapphlaup í efni.

Í stað þess að fyrirtækin muni selja öllum sem vilja kaupa efnið yfir hvaða kerfi sem það notar, eins og til dæmis Netflix gerir þá mun samkeppnin snúast um það að fjarskiptafyrirtæki séu að kaupa efni, til þess að viðskiptavinurinn velji að skipta við það fjarskiptafyrirtæki en ekki vegna þjónustu þess og öðrum lausnum. Eðli málsins samkvæmt er það þannig að ef einn aðili hegðar sér þannig, þá byrja allir aðilar að haga sér þannig. Ef þessi þróun heldur áfram mun hún hækka kostnað fyrirtækjanna við efni sem mun koma niður á verði til neytenda og arðsemi fyrirtækjanna. Ég tel hins vegar eins og Póst- og fjarskiptastofnun að það hafi verið tekið á þessu máli í fjölmiðlalögunum á sínum tíma og um það snýst þessi deila. En svo vinnur auðvitað líka gott fólk í Símanum sem sér hlutina með sínu nefi. En svona sé ég þetta í stuttu máli að það hefur aldrei tekist að skilja á milli hagsmuna smásölufyrirtækisins Símans og innviðafyrirtækisins Mílu í rekstri. Ég treysti því hins vegar enn þá að eftirlitsaðilar standi vaktina og bindi enda á þessa hegðun Símans og tryggi þannig heilbrigðan samkeppnismarkað."

Viðtalið við Stefán í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .