Sigmar Vilhjálmsson, stofnandi og eigandi Hamborgarafabrikkunar, hefur látið af störfum sem markaðsstjóri Subway. Hann segir að verkefnið hafi í raun aðeins verið tímabundið og ekki hafi staðið til að hann staldraði þar lengi við.

„Ég fór bara inn í vor með Skúla (innsk. blm. Skúla Gunnari Sigfússyni, eiganda Subway) og það var bara í skamma stund. Hann var markaðsstjóralaus og ég fór í smá verkefni með honum í þjónustu- og markaðsmálum, innleiddi meðal annars bát dagsins, þannig að ég var í raun aldrei markaðsstjóri þó ég hafi nú haft þann titil til að einfalda samskipti við ýmsa aðila,“ segir Sigmar aðspurður um starfslokin.

Sigmar segir að hugurinn sé við annað verkefni þessa dagana sem hann stendur fyrir í samstarfi við Skúla. „Við erum að byggja upp ansi metnaðarfullt og stórt verkefni í ferðaþjónustu, eða húsnæði á Hvolsvelli sem mun hýsa eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands með gagnvirkri sýningu. Þetta er stórt verkefni og við erum vonandi að klára fjármögnunina á næstu vikum.“

Aðspurður hvort framkvæmdir hefjist ekki fljótlega fyrst fjármögnun sé að ljúka svarar Sigmar játandi. „Við vorum að fá samþykkt aðalskipulag núna í vikunni, þannig að við vonumst til þess að framkvæmdir byrji í janúar eða febrúar ef veður leyfir.“