Sigmar Vilhjálmsson, þekktur sem annar helmingurinn af Simma og Jóa, hefur dregið sig út úr daglegum rekstri Hamborgarafabrikkunar. Hann ætlar að beina kröftum sínum í auknum mæli að framleiðslufyrirtækinu Stórveldið, sem hann á með Jóa, Jóhannesi Ásbjörnssyni, og Huga Halldórssyni. Fyrirtækið hefur framleitt fjölda sjónvarpsþátta á borð við Andra á flandri, Týndu kynslóðina og grillþætti Hrefnu Sætran. Þættir fyrirtækisins eru sýndir hjá öllum innlendu sjónvarpsstöðvunum, RÚV, Stöð 2 og SkjáEinum.

Simmi segir í samtali við Séð og heyrt sem kom út í dag, mikið að gera hjá Stórveldinu enda mikil þörf á innlendri dagskrárgerð. Þá sé von á enn einum þættinum sem sýndur verði á SkjáEinum eftir áramótin. Það er raunveruleikaþáttur þar sem fólk mun taka þátt í ljósmyndasamkeppni.

„Við erum með framkvæmdastjóra, sem er einn hluthafa líka, en Jói er enn á fullu,“ segir Simmi í samtali við blaðið.