*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 13. september 2012 13:34

Simmi vinnur minna á Fabrikkunni

Annar helmingurinn af Simma og Jóa ætlar að ljá framleiðslufyrirtækinu Stórveldinu krafta sína í meiri mæli en áður.

Ritstjórn
Jói og Simmi við opnun Hamborgarafabrikkunnar.

Sigmar Vilhjálmsson, þekktur sem annar helmingurinn af Simma og Jóa, hefur dregið sig út úr daglegum rekstri Hamborgarafabrikkunar. Hann ætlar að beina kröftum sínum í auknum mæli að framleiðslufyrirtækinu Stórveldið, sem hann á með Jóa, Jóhannesi Ásbjörnssyni, og Huga Halldórssyni. Fyrirtækið hefur framleitt fjölda sjónvarpsþátta á borð við Andra á flandri, Týndu kynslóðina og grillþætti Hrefnu Sætran. Þættir fyrirtækisins eru sýndir hjá öllum innlendu sjónvarpsstöðvunum, RÚV, Stöð 2 og SkjáEinum.

Simmi segir í samtali við Séð og heyrt sem kom út í dag, mikið að gera hjá Stórveldinu enda mikil þörf á innlendri dagskrárgerð. Þá sé von á enn einum þættinum sem sýndur verði á SkjáEinum eftir áramótin. Það er raunveruleikaþáttur þar sem fólk mun taka þátt í ljósmyndasamkeppni.

„Við erum með framkvæmdastjóra, sem er einn hluthafa líka, en Jói er enn á fullu,“ segir Simmi í samtali við blaðið.