Verið er að skvera af Sindra RE, sem hefur legið aðgerðalaus við festar í Reykjavíkurhöfn, frá því snemma á síðasta ári. Til stendur að gera hann út á net að nýju en Sindri er einn af fyrstu yfirbyggðum smábátunum í flotanum.

Jón Sigurðsson, Jón á Sindra, lét smíða hann á Skagaströnd árið 1977. Nokkrum árum seinna tók hann bátinn á land og lét lengja hann og smíða á hann yfirbyggingu. Jón er núna sestur í helgan stein og seldi Kristjáni Páli Ström Jónssyni bátinn fyrir þremur árum.

"Við fengum leigt húsnæði hjá höfninni úti á Granda. Þar tókum við Sindra á land og lengdum hann um þrjá metra og byggðum yfir hann. Yfirbyggingin er úr áli. Við vorum nokkra mánuði að þessu og vinnan við þetta var mikil,“ segir Jón.

Það var fátt um yfirbyggða báta á þessum árum og líklega var Sindri sá þriðji í röðinni. Jón segir að um svipað leyti hafi verið byggt yfir tvo báta á Skaganum og þeir hafi báðir sokkið.

Strætóinn

Um tíma gekk Sindri RE undir nafninu Strætóinn. Hann segir að útgerðin og vinnslan hafi alltaf gengið ágætlega. Báturinn hafi reynst vel og alltaf verið eins og nýr því honum var mjög vel viðhaldið. Hann var smíðaður á Skagaströnd 1977 og var sérstaklega þykkt plast í honum, eða 18 millimetrar.

„Verðmætin felast í kvótanum en verðið sem fékkst fyrir bátinn sjálfan var sáralítið, 5 eða 6 milljónir króna. Kristján Páll heldur nú áfram. Hann var með mér til sjós í 22 ár og við vorum alltaf bara tveir á netum. Í tíu ár réri ég honum reyndar einn,“ segir Jón.

Flakað um borð

Hann fékkst lítið við línuveiðar á Sindra enda hefði það kallað á meiri mannskap og dýrari veiðarfæri. Þeir Kristján Páll unnu fiskinn að miklu leyti sjálfir, jafnt um borð í Sindra og í landi. Í tíu ár var fiskurinn flakaður um borð og Sindri var eini báturinn á landinu sem hafði leyfi frá ráðuneytinu til þess.

„Við byggðum afkomu okkar á þessu. Við flökuðum og flöttum og fluttum út saltfisk. Á endanum vildu fleiri fá að gera þetta um borð og þá var tekið fyrir þetta. Í framhaldinu urðu félögin tvö, Sindafiskur og Sindri ehf. Þá gat báturinn landað hjá Sindrafisk og aflinn var unnin í landi,“ segir Jón.

Í mannskaðaveðri

„Í fyrsta róðrinum eftir að við höfðum byggt yfir hann lentum við í stórviðri í Faxaflóanum. Þrjár trillur frá Akranesi fórust í þessu veðri. Þarna varð ég fyrir ákveðinni lífsreynslu en eftir það treysti ég líka alltaf bátnum. Það suðvestan tólf til fjórtán vindstig og stórsjór. Við fengum á okkur hvert brotið á fætur öðru. Við það fór báturinn aldrei nema á hliðina en rétti sig alltaf af. Það komst ekki sjór inn í hann vegna yfirbyggingarinnar. Við vorum annars ekkert að róa í svona veðrum en stundum gera þau ekki boð á undan sér.“

Jón er frá Akranesi en býr nú í Reykjavík. Hann fór ungur til sjós og menntaði sig svo í skipstjórnarfræðum. Hann tók þátt í síldveiðunum fyrir norðan á Skírni frá Akranesi og hafði ágætlega upp úr því. Í framhaldinu réðst hann til Hafrannsóknastofnunar og vann þar sem aðstoðarmaður Jakobs Jakobssonar, þáverandi forstjóra, í tíu ár. Hann segir það hafa verið góðan skóla og hann starfað þar með góðu fólki. Eins og margir sjómenn hafi hann átt það til að vera dálítið óheflaður í tali en samskiptin við starfsmenn stofnunarinnar hafi breytt viðhorfi sínu.