*

föstudagur, 19. október 2018
Innlent 22. apríl 2018 18:02

Sjá fram á bjartari tíð í rekstri

Forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar segir að eftir þrotlausa vinnu séu bjartari tímar framundan í rekstri Helliðsheiðarvirkjunar.

Ritstjórn
Marta Rós Karlsdóttir, vélaverkfræðingur sem stýrir auðlindamálum hjá Orku náttúrunnar.
Haraldur Guðjónsson

„Samspil orkuöflunar og niðurdælingar á Hellisheiði er mjög flókið og það hefur verið ærið verkefni okkar færasta jarðvísindafólks að finna bestu mögulegu tilhögun jarðhitanýtingar á svæðinu. Eftir þrotlausa vinnu erum við nú að sjá fram á mun bjartari tíma í rekstri Hellisheiðarvirkjunar,“ segir Marta Rós Karlsdóttir, vélaverkfræðingur sem stýrir auðlindamálum hjá Orku náttúrunnar. 

Marta Rós segir að stækkun á vinnslusvæði virkjunarinnar með nýjum borholum í Hverahlíð hafi heppnast mjög vel og hafi tryggt að virkjunin er nú rekin á fullum afköstum. Þróun niðurdælingar á jarðhitavökva hafi verið sett í forgang til að tryggja að hún styðji við vinnslu á svæðinu til frambúðar. Marta Rós er einn fyrirlesara á IGC-ráðstefnunni, sem hefst í Hörpu á þriðjudaginn og fjallar m.a. í erindi sínu um hvernig ON hefur unnið úr þeim áskorunum sem blöstu við á Hellisheiði. „Hagkvæmur og ábyrgur rekstur byggist á að hvorttveggja gufuöflun til virkjunarinnar og niðurdæling frá henni séu í samræmi við afkastagetuna,“ segir hún.

Hefur nýting á borholum Hellisheiðarvirkjunar reynst vonum samkvæmt miðað við lengra tímabil? „Það fer eftir því hvernig við nýtum þær. Við erum með varmaframleiðslu á Hellisheiði þar sem vökvinn í holunum leikur lykilhlutverk við framleiðslu heita vatnsins. Það sem hefur reynst okkur erfitt undanfarið er að hafa ekki holur sem við getum sótt í eftir þörfum, þ.e. að nýta vatnsmiklu holurnar á veturna, þegar heitavatnsþörfin á höfuðborgarsvæðinu er mikil, en hvílt þær á móti á sumrin þegar þörfin er minni. Þá væri betra að nota gufuríkari holur til rafmagnsframleiðslu. Við höfum þurft að nota vatnsmiklar holur allt árið og þar með höfum við verið með meira vatn í vinnsluferlinu en æskilegast væri,“ segir Marta Rós. „Nýjar holur sem við erum byrjuð að bora gera okkur hins vegar kleift að tryggja heppilegt jafnvægi í nýtingunni. Með fleiri holum og fjölbreyttari á svæðinu getum við hámarkað orkunýtinguna. Hugsunin er sú að við eigum alltaf nægjanlega gufu fyrir fulla framleiðslu og hafa nauðsynlegan sveigjanleika í framleiðslu á bæði heitu vatni og raforku.“

Hátt í 60 holur á tólf árum

Hellisheiðarvirkjun er með stærri jarðhitavirkjunum heims. Frá því að virkjunin hóf starfsemi árið 2006 hafa hátt í sextíu holur verið boraðar í hennar þágu. Þá eru taldar með holur í Hverahlíð sem nú nýtast Hellisheiðarvirkjun í stað sjálfstæðrar virkjunar sem var áætluð að þar risi. Á næstu tíu árum er reiknað með bora þurfi allt að tíu holur til að stækka vinnslusvæði virkjunarinnar og viðhalda afkastagetu. Minnkun á gufuflæði frá upprunalega vinnslusvæði virkjunarinnar nam hæst um 20 megavöttum á ári sem var skýr vísbending um að þróa þurfti vinnslu á svæðinu í sjálfbærari átt. Stórt skref í þá átt var flutningur á orku frá Hverahlíð.

Virkjunin er orðin tólf ára gömul - er óþrjótandi orka á þessu svæði? Verður virkjunin ennþá starfandi eftir t.d. hálfa öld? „Þetta er einmitt það sem sérfræðingar okkar vinna stöðugt að, að þróa orkuvinnslu á svæðinu þannig að nýtingin standist tímans tönn,“ segir Marta Rós. „Jarðhitinn er hulin auðlind sem illmögulegt er að átta sig á án þess að bora og fá reynslu á nýtingu orkunnar. Þá fyrst sjáum við hvernig jarðhitasvæðin standa undir orkuvinnslunni. Eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa á sínum tíma kom í ljós að það var ekki eins mikil gufa á svæðinu og upphaflega hönnunin gerði ráð fyrir. Svæðið sem við höfum verið að vinna úr er því of lítið fyrir virkjunina, eða virkjunin of stór fyrir svæðið. Sú borun sem nú er í gangi og fyrirhuguð er miðar að því að stækka vinnslusvæðið og gera vinnsluna þannig sjálfbærari. Þarna spilar niðurdæling jarðhitavökva einnig stórt hlutverk í að auka sjálfbærni virkjunarinnar, því með henni skilum við jarðhitavökvanum aftur þangað sem við sóttum hann og styðjum við endurnýjun jarðhitageymisins. Hvað varðar heitavatnsframleiðsluna er alveg öruggt að þarna verður unninn jarðvarmi til húshitunar um ókomna tíð.“

Engar nýjar virkjanir á teikniborðinu

Sérðu fyrir þér að ON muni halda áfram raforkuframleiðslu með jarðvarmavirkjunum eða gefur reynslan af Heillisheiðarvirkjun kannski ekki nægjanlega góða raun? „Orkuveitusamstæðan hefur engin áform um að byggja nýjar virkjanir að svo stöddu en við einbeitum okkur þess í stað að því að nýta núverandi virkjanir sem best,“ segir hún. „Ég myndi alls ekki segja að Hellisheiðarvirkjun hafi valdið vonbrigðum, en hún hefur hins vegar kennt okkur margt um hvernig þarf að undirbúa, framkvæma og reka slíka virkjun á sem hagkvæmastan hátt. Okkur mæta nýjar og skemmtilegar áskoranir á hverjum degi og Hellisheiðarvirkjun verður líka betri og betri með hverjum deginum.“ 

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.