Alþjóðlegi fjárfestingabankinn Goldman Sachs telur að vextir muni hækka fjórum sinnum á næsta ári í Bandaríkjunum að því er kemur fram á vef fréttaveitunnar Bloomberg .

Þá telur bankinn jafnframt að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði örlitlu meiri en áður hafði verið spáð og atvinnuleysi minna. Greinendur og markaðsaðilar hafa alla jafna gert fyrir að vaxtahækkanir verði ekki svo miklar á næsta ári. „Við búumst við þennslu á vinnumarkaði og verðbólguþróun sem muni leiða fram fjórar vaxtahækkanir seðlabankans á næsta ári,“ segir í greiningu bankans en þar er því spáð að verðbólga hækki um 0,5 prósentustig og verði um 1,8% við lok árs 2018.

Nái spáin fram að ganga mun atvinnuleysi í Bandaríkjunum aðeins nema 3,5% sem er það lægsta síðan á seinni hluta sjöunda áratugarins.

Viðskiptablaðið greindi frá því á fimmtudaginn að Seðlabanki Íslands muni ekki afnema innflæðishöft á skuldabréfamarkaði fyrr en að vaxtamunur á milli Íslands og annarra ríkja dragi verulega saman. Hraðari hækkun vaxta í Bandaríkjunum gæti því þýtt að grundvöllur opnist fyrr fyrir því að létta af höftunum en í nýjustu útgáfu peningamála er því spáð að framleiðsluspenna, sem vextir fylgja alla jafna, dragi fyrst saman með Íslandi, Bandaríkjunum og evrusvæðinu seinni hluta ársins 2019.