Fyrirtækið Circular Solutions er ungt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í að finna kolefnisspor fyrirtækja og veita ráðgjöf um stefnumótun í umhverfismálum. Hjá fyrirtækinu starfa fimm starfsmenn en þeir vinna nú að því að kynna vörur sínar fyrir fyrirtækjum.

„Við erum sérfræðingar í umhverfismálum hjá fyrirtækjum og erum með tvær vörur sem við erum að kynna, það er ráðgjafarþjónusta og svo hugbúnaður. Hugbúnaðurinn er opið losunarbókhald, þar sem fyrirtæki geta streymt gögnunum sínum inn í hugbúnaðinn okkar og séð kolefnissporið sitt í rauntíma, skipt yfir á mismunandi þætti fyrirtækisins. Svo erum við með ráðgjafarþjónustu sem snýst um að hjálpa fyrirtækjum að búa til umhverfisstefnu. Við bjóðumst svo til að vinna með þeim að finna leiðir til að minnka sporið miðað við hvað er raunhæft og hagkvæmt að gera,“ segir Hafþór Ægir Sigurjónsson, vörustjóri Circular Solutions. Jafnframt segir hann að fyrirtækið vinni á markaðsgrundvelli að því að gera viðskiptavini sína umhverfisvænni.

„Við stofnuðum fyrirtækið fyrir einu ári síðan í september. Fjórir okkar voru með þetta í maganum í svolítinn tíma. Ég hef verið að kenna í Háskóla Íslands og kláraði doktorsnámið mitt í DTU í Danmörku og langaði að finna flöt á íslensku atvinnulífi til þess að nýta sérþekkinguna,“ segir Hafþór en hinir þrír stofnendurnir koma úr umhverfis- og auðlindafræðideildinni úr Háskóla Íslands.

Þá segir Hafþór fyrirtækið vilja nýta Ísland sem tilraunamarkað en svo sé stefnan sett á evrópskan markað. „Við hugsum Ísland sem byrjunarreit því það er betra að­ gengi að viðskiptalífinu fyrir okkur hér. Við höfum verið að vinna þetta svolítið í kynningar- og fræðslumálum nýverið og sýnt fyrirtækjum hvernig vörurnar okkar geta hjálpað. Það hefur verið mikill áhugi hjá mörgum af stærri fyrirtækjunum á Íslandi um að fara þessa leið,“ segir hann en náist árangur hér er næsta stopp í Danmörku þar sem Hafþór var í doktornámi og annar meðstofnandi, Reynir Smári Atlason, er búsettur en sá síðarnefndi er einnig lektor við Háskólann í Suður-Danmörku.

„Við erum að reyna að vera með lausn sem er mjög skalanleg. Við byggjum þetta á stöðlum sem eru notaðir alþjóðlega, þannig að þetta virki annars staðar en bara á Íslandi. Þetta er að verða stórt annars staðar og í Evrópu sérstaklega,“ segir Hafþór en í kjölfar Parísarsáttmálans segir hann áhuga fyrirtækja, á að taka þátt í þeirri áskorun að draga úr kolefnislosun, vera að aukast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .