Fáir hafa orðið því varhuga að miklar verðhækkanir hafa verið á húsnæðismarkaði og fáar nýbyggingar hafa valdið mörgum hugarangri og því skal engan undra þar sem húsnæði er stærsti útgjaldarliður og stærsta eign flestra heimila. Húsnæðisverð hefur hækkað umtalsvert hraðar á fyrstu mánuðum ársins. Í nýrri greiningu Arion banka kemur þó fram að að það hægi talsvert á verðhækkunum þegar líður á árið.

Þrátt fyrir að aðstæður verðhækkanna séu enn til staðar, þar sem söluframboð er lítið og útlit fyrir talsverðan innflutning vinnuafls á næstu árum, vegur upp á móti meiri íbúðarfjárfesting. Gangi spár og væntingar Arion banka eftir mun líklega byrja að draga úr húsnæðisskorti á næsta ári, en þangað til verður markaðurinn áfram erfiður fyrir kaupendur.

Dugir til að mæta fólksfjölgun

Greiningardeild Arion banka setur einnig fram þá áleitnu spurningu hvort að byggt verði nóg til að mæta fólksfjölgun á næstu árum? Stutta svarið að sögn greiningardeildarinnar er það að útlit sé fyrir það þegar fram í sækir.

„Byggðar verða um 8.000 íbúðir á landinu öllu til ársloka 2019 skv. uppfærðri spá okkar um íbúðafjárfestingu, sem eru talsvert fleiri íbúðir en við gerðum ráð fyrir í janúar. Það sem styður fyrst og fremst við framboðsaukninguna er hækkandi húsnæðisverð, en það eykur hvatann til nýbyggingar. Þá jókst íbúðafjárfesting talsvert meira í fyrra en við gerðum upphaflega ráð fyrir, sem bendir til þess að aukinn kraftur sé að færast í uppbyggingu íbúða. Að sama skapi spá Samtök iðnaðarins að íbúðum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga mun hraðar á næstu árum. Spá okkar um íbúðafjárfestingu felur þó í sér að fjöldi fullorðinna einstaklinga á íbúð stendur nokkurn veginn í stað milli 2016 og 2019, sem þýðir að ekki verður unnið á uppsöfnuðum skorti á markaðnum á næstu misserum hið minnsta. Hafa verður í huga að spárnar um fjölgun íbúða eru afturhlaðnar á meðan mesta fjölgun íbúa verður að öllum líkindum í ár. Það þýðir að húsnæðisskorturinn mun aukast enn meira í ár en fara svo dvínandi. Það er þó mjög erfitt að meta nákvæmlega hver sá skortur er en útlit er fyrir að hann nemi örfáum þúsundum íbúða,“ segir í greiningunni.

Jákvætt að útlit er fyrir að skortur á húsnæði fari minnkandi

Að sögn greiningardeildarinnar er það mjög jákvætt að útlit sé fyrir að skortur á húsnæði muni bráðlega fara minnkandi, að því gefnu að byggingageirinn taki við sér sem skildi. Þó bendir greiningardeildin á að þá skuli hafa í huga að mögulegt er til dæmis að hagvöxtur verði minni en við spáum, meðalvinnutími lengist, atvinnuleysi fari niður í gólf eða að framleiðni aukist meira en er spá. Allt myndi þetta kalla á minni innflutning vinnuafls og því minni spennu á húsnæðismarkaði.

„Einnig er ekki útilokað að íbúðafjárfesting verði meiri en við spáum. Sem rök fyrir því má nefna að verið er að setja á fót aðgerðahóp fjögurra ráðherra sem á að greiða fyrir byggingu lítilla íbúða. Þó að staða margra á húsnæðismarkaði verði að líkindum áfram þröng næstu mánuði og verð mun líklega hækka áfram má sjá glitta í ljós við enda ganganna þar sem framboð íbúða virðist loksins ætla að halda í við eftirspurn,“ segir að lokum.