Væntingavísitala Gallup hækkaði um 3,5 stig milli febrúar og mars og stendur því nú í 129,2 stigum, sem er þriðja hæsta gildi frá upphafi mælinga. Endurspeglar vísitalan almenna bjartsýni á meðal Íslendinga, enda marka 100 stig jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal neytenda. Þetta kemur fram í frétt Greiningar Íslandsbanka sem gerir bjartsýni Íslendinga í marsmánuði að umfjöllunarefni sínu.

Greining Íslandsbanka telur að staðan sé í góðu samræmi við þann góða gang sem hefur verið í hagkerfinu og í kjölfarið efnahag heimila að jafnaði. Marka má af mælingum Gallup að heimilin séu mjög sátt við núverandi stöðu og þar að auki bjartsýn á framtíðina, að mati Íslandsbanka.

„Gildi undirvísitölunnar sem á að endurspegla mat neytenda á núverandi stöðu hækkaði um 4,9 stig á milli mælinga og mælist nú 153,4 stig, sem er mjög hátt sögulega séð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Jafnframt telur meirihluti svarenda að staðan verði enn betri að 6 mánuðum liðnum, en sú vísitala stendur í 113,1 stigi og hækkar um 2,5 stig frá síðustu mælingu,“ segir í frétt greiningardeildarinnar.