Það eru tveir samverkandi þættir sem fyrirtæki þurfa að hafa í huga þegar kemur að sjálfbærum rekstri. Í fyrsta lagi þá með aukinni hagsæld í heiminum og aukinni fólksfjölgun, eykst eftirspurn eftir vörum og þjónustu umtalsvert. En á sama tíma er aukið álag á vistkerfi heimsins sem viðheldur mannlegu samfélagi og hefur einnig mikil áhrif á rekstur fyrirtækja. Þetta segir Gil Friend, stofnandi og stjórnarformaður fyrirtækisins Natural Logic Inc. „Við viljum leggja áherslu á sameiginlegan skilning um vísindin,“ segir Friend. Ef við náum því markmiði telur hann að auðveldara sé fyrir fyrirtæki að bregðast við þessum áskorunum. „Við hugsum oft um vísindi og ágreining um þau í sömu andránni. En sumt af því sem kemur fram er staðfest af rannsóknum til margra ára,“ segir hann.

Gil Friend hefur um áratugabil aðstoðað stórfyrirtæki, á borð við Levi & Strauss og General Mills, við það að hanna, innleiða og leggja svo mat á sjálfbærar aðferðir við rekstur þeirra. Hann er talinn einn af forfeðrum sjálfbærnishreyfingarinnar og hefur meðal annars verið valinn einn af þeim tíu aðilum í Bandaríkjunum sem láta sig þessi málefni varða af breska blaðinu The Guardian. Árið 2013 var hann valinn sjálfbærnisstjóri Palo Alto borgar, sem er talin mjög framarlega á merinni hvað sjálfbærni varðar. Friend kom til landsins til að halda fyrirlestur á morgunfundi Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar.

Mikilvægi fyrirtækja

Friend telur að fyrirtæki finni einnig fyrir því ef ekkert er gert til að sporna við þessari þróun sem er nú þegar farin af stað. Því telur hann það nauðsynlegt að þau taki þátt í ferlinu. „Við leggjum til ákveð in gildi sem hjálpa fyrirtækjum að greina þær áhættur,“ segir hann.

„Það verður að vinna að þessum málaflokki í samstarfi fyrirtækja, einstaklinga og ríkisins,“ segir Friend. Hann bætir við að heimurinn sé í bágri stöðu. „Við erum í erfiðri stöðu. Við getum ekki í komið í veg fyrir hlýnun jarðar. Við verðum hins vegar að finna leiðir til að minnka neikvæð áhrif og finna hvata fyrir fyrirtæki að gera svo,“ segir Friend enn fremur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .