Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í samtali við BBC að ríkisstjórnin hefði það að markmiði að koma sjálfkeyrandi bílum á götur Bretlands árið 2021. Bílarnir ættu að vera algjörlega sjálfkeyrandi og án öryggisökumanns.

„Einhverjir kynnu að segja að þetta væri helst til djarft, en við þurfum að taka þessum tækniframförum fagnandi ef Bretland ætlar að vera leiðandi í næstu iðnbyltingu,“ sagði fjármálaráðherrann, sem sagðist reyndar ekki sjálfur hafa prófað sjálfkeyrandi bíl. „Ég ætla hins vegar að gera það á morgun,“ var haft eftir honum um helgina.

Hann sagði að ekki væri hægt að sporna við tækniframförum sem þessum og að áskoranir fælust vissulega í því þegar störf myndu tapast fyrir ökumenn. Ríkið þyrfti að gera sitt til að tryggja að atvinnubílstjórar gætu hafið nýjan starfsferil.

Efasemdamenn um sjálfkeyrandi bíla eru hins vegar margir. Þannig sagði Jeremy Clarkson, einn stjórnenda þáttarins Grand Tour og fyrrverandi stjórnandi Top Gear, sagðist til dæmis nýlega hafa ekið 50 mílur í sjálfkeyrandi bíl sem hafi gert tvö mistök sem hefðu getað kostað hann lífið.