Stjórnendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafa margir verið einkar framsýnir í gegnum tíðina. Endurspeglast það í þeirri staðreynd að þeir hafa verið óhræddir við að tileinka sér tækninýjungar. Þessi ríka áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á tækniframfarir hefur að mörgu leyti verið hinn frjói jarðvegur íslenskra tæknifyrirtækja, sem á síðustu árum hafa náð að vaxa og dafna og skipa sér í fremstu röð á sínu sviði á alþjóðavísu. Færa má sterk rök fyrir því að án íslensku útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjanna væri staða tæknifyrirtækjanna ekki sú sem hún er í dag.

Á Íslandi eru starfandi tugir hátæknifyrirtækja sem vinna að lausnum fyrir sjávarútvegstengdar greinar. Fimm stærstu fyrirtækin eru Marel, Skaginn 3X, Hampiðjan, Curio og Valka. Auk þeirra eru um sextíu smærri fyrirtæki starfandi í landinu. Þá má ekki gleyma íslensku hugbúnaðarfyrirtækjunum, sem eru mjög framarlega á sínu sviði þegar kemur að lausnum fyrir sjávarútveg. Það sem einkennir þennan tæknigeira er að fyrirtækin starfa mikið saman. Oftar en ekki hefur samstarfið sprottið upp úr samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans en Sjávarklasinn veitir fyrirtækjum og frumkvöðlum ýmsa þjónustu með það að markmiði að skapa ný verðmæti.

Algjör bylting

Samherji er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa tæknivædd sína starfsemi á síðustu árum. Skipin eru orðin  tæknilega fullkomin og vinnslan einnig. Í fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa, sem er í eigu Samherja, er hátæknibúnaður til að mynda mjög áberandi. Samhliða byggingu nýs húss var fullkomnum vinnslubúnaði komið þar fyrir. Í dag aka þar um sjálfkeyrandi lyftarar og vélmenni raða kössum á bretti og pokum í kassa. Tæknin hefur sem sagt leyst störf sem voru bæði einhæf og erfið fyrir starfsfólk.

Sjá einnig: Hátæknifyrirtæki í fremstu röð

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að í dag standi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mjög framarlega í vinnslu á botnfiskafurðum.

„Okkur hefur einnig tekist að byggja upp uppsjávarvinnsluna, þar sem við vorum orðin langt á eftir til dæmis Norðmönnum,“ segir Þorsteinn Már. „Sú uppbygging fór fram með íslenskum iðn- og tæknifyrirtækjum. Sjávarútvegsfyrirtækin þróuðu búnaðinn í samvinnu við tæknifyrirtækin. Óhætt er að segja að á síðustu árum hafi orðið algjör bylting í uppsjávarvinnslunni á Íslandi. Staðan í dag er því sú að íslensk fyrirtæki standa mjög framarlega í tækniþróun við vinnslu á bæði botnfiskafurðum og uppsjávarafurðum. Þetta hefur gerst á tiltölulega skömmum tíma. Á síðustu árum hefur orka Norðmanna til að mynda farið í að þróa tækni í tengslum við laxeldi. Norðmenn eru stærsta laxeldisþjóð í heimi en færri vita að stærstu vinnslur Norðmanna í laxeldi eru í Póllandi. Íslensku tæknifyrirtækin hefðu aldrei komist á þann stað sem þau eru á í dag nema vegna áhuga sjávarútvegsfyrirtækjanna og vilja þeirra til að fara í þróunarvinnu. Árangur Marel og fleiri fyrirtækja byggir að stórum hluta á þróunarvinnu með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það getur enginn selt svona tæknivörur nema búið sé að þróa og prófa þær og það er það sem íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hafa gert. Þau hafa verið að leita lausna og þannig hefur boltinn byrjað að rúlla. Tæknifyrirtækin koma með sínar hugmyndir og við í sjávarútveginum okkar. Með þessum hætti hafa orðið til fullkomin tæki, flökunarvélar, skurðarvélar, frystibúnaður og fleira. Þetta hefur verið mikil og góð samvinna.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um fjórðu iðnbyltinguna. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected] .