Nýsköpunarfyrirtækið 50skills sem hjálpar fyrirtækjum við að sjálfvirknivæða ráðningar, hefur nú sett á markað nýja lausn sem kemur hinum nýjum starfsmanni inn í öll kerfi fyrirtækisins sjálfkrafa.

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri 50skills segir að fyrirtæki sem nýti lausnir fyrirtækisins geti þannig boðið tilvonandi starfsfólki mun betri upplifun í öllu ráðningarferlinu. „Við erum á hraðri leið að búa til drauma ráðningarkerfi með samþættingu við önnur kerfi fyrirtækisins,“ segir Kristján Freyr.

„Þetta er meðal annars gert með því að sjálfvirknivæða tímafrek verkefni og veita stjórnendum aðgang að nútímalegri tækni og tengingum sem veitir yfirsýn og einfaldar ákvarðanatöku.”

Almennir starfsmenn koma að nýju ráðningunni

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í október þá felst lausn 50skills meðal annars í hvatningu til allra starfsmanna fyrirtækisins um að taka þátt í ráðningarferlinu.

Kristján Freyr segir að nýja lausnin, sem líta má á sem fimmta skrefið í ráðningarferlinu, geri fyrirtækjum kleift að virkja nýja starfsmanninn á fljótlegan og auðveldan hátt. Margir hafa reynslu af því að það tekur oft langan tíma að koma fólki inn í öll kerfi en Kristján Freyr segir að nú sé það hægt með sjálfvirkri lausn 50skills.

„Nú geta fyrirtæki búið til persónulega upplifun fyrir nýtt starfsfólk þar sem þeim gefst tækifæri til að læra meira um nýja vinnuveitandann, innri verkferla og tól og tæki áður en þeir hefja störf,“ segir Kristján Freyr.

„Partur af lausninni felur í sér að stofna nýja starfsmenn sjálfkrafa í innri kerfum sem og að sjálfvirknivæða hvernig nauðsynleg skjöl eru útbúin, undirrituð og vistuð."

Krónan samið um notkun kerfisins

Eitt af þeim íslensku fyrirtækjum sem hefur nýlega samið við 50skills er Krónan, sem notar lausnina til að ráða í stöður hjá öllum sínum verslunum. Guðríður Hjördís Baldursdóttir, mannauðsstjóri hjá Krónunni segir fyrirtækið vilja vera fyrirmyndar vinnustað.

„Fyrsta skrefið í upplifun starfsfólks er auðvitað ráðningin,“ segir Guðríður Hjördís. „50skills hjálpar okkur að gera allt starfsfólk hluta af ráðningateyminu með snjöllum samfélagsmiðla deilingum. Þannig fáum við fleira gott fólk í okkar hóp og getum verðlaunað starfsfólk fyrir þeirra þátttöku í ráðningum.“

Í samstarfi við fyrirtæki í 6 löndum

50skills hefur nú samið við fyrirtæki í 6 löndum, þar á meðal Íslandi og Boston þar sem 50skills er með skrifstofur. Á Íslandi má þar nefna fyrirtæki á borð við Meniga, Gló, Oz, Travelade, Beringer Finance, Póstdreifingu, Premis, Húsgagnahöllina, Ger, Dorma, Betra Bak og fleiri.

Kristján Freyr segir ráðningar vera að breytast út um allan heim, líkt og annað með tilkomu nýrrar tækni. „Allir vinnuveitendur þurfa þó á starfsfólki að halda“ segir Kristján Freyr. .„Við ætlum að halda áfram að hjálpa fyrirtækjum að nýta þær lausnir fyrir það sem skiptir mestu máli, sem er að finna rétt starfsfólk og koma þeim inn í nýtt vinnuumhverfi.“