Í rúman mánuð hafa viðskiptavinir Krónunnar í Nóatúni haft val um að afgreiða sig sjálfir við nýja afgreiðslulausn eða greiða fyrir vörur á hefðbundinn hátt við mannaða afgreiðslukassa. Sjálfsafgreiðslan hefur gengið svo vel að á næstu vikum verða fleiri slíkir kassar teknir í notkun í nýjum verslunum Krónunnar á Hvolfsvelli og í Garðabæ að því er segir í fréttatilkynningu frá Advania.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá hinum nýju sjálfsafgreiðslukössum, en í samtali við Jón Björnsson, forstjóra Festa, móðurfélags Krónunnar, kom fram að þá var stefnt að því að setja upp kassana einnig á Hvolfsvelli. Að hans sögn var þá ekki búið að ákveða hvar þeir kæmu til viðbótar, en þeir ættu kassa fyrir tvær verslanir til viðbótar.

Hátt hlutfall velur sjálfsafgreiðslu

„Strax á fyrsta degi sáum við hátt hlutfall viðskiptavina velja sjálfsafgreiðslu,“ segir Karen Rúnarsdóttir markaðsstjóri Krónunnar. „Nýju kassarnir virka vel og notkun þeirra hefur gengið vonum framar.“ Tilgangurinn með sjálfsafgreiðslulausnum er að draga úr álagi í verslunum og stytta biðraðir. Afgreiðslukerfið er einfalt og allir sem greiða með greiðslukorti geta notað það.

„Við finnum hvernig sjálfsafgreiðsluviðbótin losar hraðar um raðir á annasömum dögum. Í verslun okkar í Nóatúni fórum við úr því að vera með fjóra afgreiðslukassa yfir í sjö. Það segir sig sjálft að þá minnka raðirnar,“ segir Karen.

„Sumir viðskiptavinir kjósa hinsvegar að versla á hefðbundnum kassa og það er líka í góðu lagi. Við viljum að viðskiptavinir okkar hafi val. Okkur finnst gaman að sjá hvað fólk er tilbúið að prófa og við erum alltaf með starfsmann á sjálfsafgreiðslusvæðinu til þess að aðstoða og leiðbeina.“

Kassarnir framleddir af NCR

Advania þjónustar afgreiðslukerfið í Krónunni en kassarnir eru framleiddir af NCR sem er leiðandi á heimsmarkaði í afgreiðslulausnum. Kerfið er því þaulprófað um allan heim og er einstaklega notendavænt. „Við fögnum því að tæknin sé farin að auðvelda okkur innkaupin og draga úr röðum við afgreiðslukassa,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.

„Reynsla Krónunnar er í takt við þróunina í Evrópu þar sem neytendur velja sjálfsafgreiðslulausnir í matvöruverslunum í auknum mæli.“ Að sögn Karenar er unnið að því að setja upp sjálfsafgreiðslukassa í fleiri verslunum Krónunnar. „Við bíðum bara spennt eftir næstu pöntun til þess að geta haldið þessari vegferð áfram,“ segir Karen.